Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:18:38 (3835)

1998-02-13 14:18:38# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:18]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mikil bjartsýni af minni hálfu að reikna með að ég gæti átt eðlileg skoðanaskipti við hv. þm. um þessi efni. Það er auðvitað deginum ljósara og rétt að upplýsa það í eitt skipti fyrir öll, ef hv. þm. vill ekki kannast við það, að Alþfl. hefur aldrei og mun aldrei njóta fjármuna frá CIA, það er bara svo einfalt.

Mér dettur ekki í hug við þessar kringumstæður að halda því fram eitt andartak að náin samskipti Framsfl. og Búlgaríukommúnista hafi verið með óeðlilegum hætti eða að einhverjir fjármunir frá Sovétríkjunum hafi runnið hingað til lands. Mér dettur ekki í hug að halda slíkri vitleysu fram þó að auðvitað mætti með svipuðum rökum og hv. þm. gerði áðan færa rök að því í gegnum þá kanala sem hann nefndi.

Ég er hins vegar að segja það, og það er auðvitað meginatriði þessa máls, að mér finnst umræða um fjármál stjórnmálaflokka og stuðning til þeirra héðan og þaðan stundum vera á villigötum. Ég var að undirstrika það að að mörgu leyti er eðlilegra og heiðarlegra að stjórnmálaflokkar njóti stuðnings af einum eða öðrum toga frá almenningi, frá stofnunum sem eru sömu lífsskoðunar og þeir sjálfir en að sækja það frá óskyldum aðilum.

Hafi mér orðið á mismæli áðan og ég talað um samvinnuflokkinn, þá voru þau dálítið kúnstug mismæli því að auðvitað var það stundum þannig að ekki samvinnuhreyfingin heldur Samband ísl. samvinnufélaga og fyrirtækjanet þess voru stundum nefnd í sömu andrá og Framsfl. Það getur því vel verið að ruglingurinn hafi stafað af því einu, og biðst ég velvirðingar á því. En þar er vissulega um að ræða hagsmuni sem eru óeðlilegir á ýmsan hátt. Fyrirtækjanetið er auðvitað allt annar handleggur en málfundahreyfing eins og samvinnuhreyfingin. Þarna verðum við að gera glöggan greinarmun á, virðulegi forseti.