Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:22:43 (3837)

1998-02-13 14:22:43# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:22]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir þátttöku í þessum umræðum þó að mér finnist að hann hafi a.m.k. sums staðar þegar hann fór yfir greinar frv. misskilið tilganginn og hugsunina á bak við hinar ýmsu greinar sem hann rakti sig í gegnum. Ég vil sérstaklega nefna 7. gr. frv. sem kveður á um að stjórnmálasamtök skuli setja reglur um störf kjörinna fulltrúa sinna og birta þær opinberlega. Hver er tilgangurinn á bak við þetta? Þetta er gert á ýmsum þjóðþingum og er hugsað á þann hátt að þingmennirnir leggi fram lista yfir öll störf sín og þátttöku í nefndum utan þings. Sem dæmi um slíkar reglur væri að alþingismenn birtu í lok hvers árs opinberlega lista yfir öll störf og þátttöku í nefndum sem þeir inna af hendi utan þings. Þetta gæti verið skynsamlegt til að hindra hagsmunaárekstra eða eyða grun um um hagsmunatengsl. Þá er ég t.d. að ræða um það þegar einhver stjórnmálaflokkur hefur það prinsipp að þingmenn hans eigi ekki að sitja í bankaráðum eða sjóðum eða fyrirtækjum á vegum hins opinbera eða stofnunum sem hafa útlánastarfsemi með höndum. Ég held að það væri mjög eðlilegt að stjórnmálaflokkar hefðu slík prinsipp. Mér finnst ekki eðlilegt að þingmenn séu t.d. í bankaráðum, í fyrirtækjum, eigi sæti í fyrirtækjum eins og hjá Pósti og síma og sitji þar í stjórn og eigi svo sæti hér á löggjafarsamkomunni og hafi síðan eftirlit með þessu sama fyrirtæki. Það er ekki verið að segja að setja eigi slíkar reglur heldur er það bara eðlilegt ef stjórnmálaflokkar hafa þessi prinsipp að það sé þá birt opinberlega að þeir telji eðlilegt að sínir fulltrúar, sem sæti eiga á þingi, eigi t.d. ekki í sitja í stjórnum og nefndum og fyrirtækjum og bankaráðum utan þings sem ekki samræmist þingstörfunum. Ég tel það ekki samræmast þingstörfunum, þó að sumir stjórnmálaflokkar hafi þennan háttinn á.