Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 14:41:35 (3842)

1998-02-13 14:41:35# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[14:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja orð í belg í umræðuna og segja fyrst að ég tel þarft mál að vekja athygli á þessu viðfangsefni og er sammála flutningsmönnum að nauðsyn er að gera bragarbót á í þeim efnum sem málið tekur til og þar er víða pottur brotinn þótt ég geti ekki tekið undir allt sem fram kemur í atugasemdum með frv. eða í einstökum greinum þess. Ég er sammála því að setja þarf sérstaka löggjöf um fjárframlög til stjórnmálaflokka eða stjórnmálastarfsemi. Ég er ekki viss um að rétt sé að binda framlögin við flokk sem starfi á landsvísu. Ég er líka sammála því að það þarf að vera í lögum, hvort sem það er í sérstökum lögum eða almennum lögum, ákvæði um að stjórnmálaflokkar og samtök geri grein fyrir fjárreiðum sínum, geri ársreikninga og láti löggilta endurskoðendur fara yfir fjármál sín og árita reikningana og að þessir reikningar séu opinber gögn þannig að öllum sé a.m.k. heimilt að nálgast þau og hugsanlega kæmi til athugunar að gera kröfu um birtingu upplýsinganna en þó er ég ekki viss um að nauðsyn sé á því. Ég held að nægjanlegt væri að aðgangur að ársreikningum og gögnum um fjármál flokkanna væri greiður hverjum sem það vill. Þá tel ég líka nauðsynlegt að í lögum sem kveða á um að stjórnmálaflokkarnir hafi sömu skyldur og atvinnurekendur að því marki sem starfsemi þeirra lýtur að því að hafa starfsfólk í vinnu þurfi auðvitað að gera grein fyrir launagreiðslum sínum, skila nauðsynlegum gjöldum því tengdum og gera skattyfirvöldum grein fyrir þessum gögnum. Þá er líka eðlilegt að stjórnmálaflokkar lúti sömu lögum og reglum og aðrir hvað varðar framtal og skil á virðisaukaskatti. Öll þau atriði sem ég hef talið upp tel ég nauðsynlegt að séu skýr og ljós, þannig að ljóst sé að stjórnmálasamtök eða stjórnmálaflokkar séu hluti af almennri löggjöf og falli undir sömu kvaðir og öðrum eru settar í þessum efnum. Að því marki tek ég undir efni frv. og hvet til þess að hv. allshn. taki málið til alvarlegrar athugunar og leitist við að afgreiða frá sér löggjöf sem tekur á þeim þáttum sem ég hef nefnt.

[14:45]

Þó er ekki svo að ég taki undir allt sem í frv. stendur og ég vil leyfa mér, herra forseti, að fara aðeins yfir þau efnisatriði sem í því eru og rekja viðhorf mín til þeirra.

Ég vil fyrst taka fram hvað varðar 1. gr. frv. sem kveður á um skyldu til þess að skrá stjórnmálasamtök hjá dómsmrn., að ég skil lagatextann þannig að þarna sé um að ræða einfalda tilkynningu samtakanna til ráðuneytisins. Ef það þýðir hins vegar eitthvað annað þannig að ráuneytið hafi það í sinni hendi að ákveða hvort það tekur við skráningunni og viðurkennir hana gilda þá tel ég það mjög alvarlegt mál því að við megum ekki undir neinum kringumstæðum að mínu viti fela einu ráðuneyti úrskurðarvald um það hvaða samtök ákveða að vera stjórnmálasamtök. Ákvörðunarvald í þeim efnum verður að vera í höndum samtakanna sjálfra.

Ég tek undir athugasemdir sem fram hafa komið hjá hv. 2. þm. Vestf. um síðari málslið 2. gr. frv. Ég tel eðlilegt að stjórnmálasamtök leggi fram lög sín og stefnuskrá. En á hinn bóginn tel ég kvaðir sem er að finna í 2. málslið 2. gr. um að samtökin birti opinberlega lög sín, stefnuskrár og stefnumarkandi samþykktir vera óþarfar með öllu. Mér er ekki alveg ljóst hvað þýðir að birta opinberlega. Það gæti þýtt að birta t.d. í Morgunblaðinu. Og ef það er kvöðin þá geta því fylgt umtalsverðir fjármunir. Ég tel að þennan hluta 2. gr. ætti að fella brott. Það leiðir af eðli máls ef samtök eru stjórnmálasamtök að þá er það þeirra hlutverk að afla fylgis við viðhorf sem þau setja fram og það geta þau ekki gert ef þau lúra á stefnuskrám sínum og stefnumarkandi samþykktum. Það þarf því ekki að mínu mati að setja kvöð um að það skuli vera aðgengilegt.

Þá tel ég að 3. og 4. gr. frv. megi fella brott og séu óþarfar. Meira að segja held ég að ekki sé til bóta að hafa þær í frv. Ég tel t.d. varðandi 3. gr., kvöðina um það að stjórnmálasamtök séu opin öllum landsmönnum, vera óeðlilega. Það á að vera réttur stjórnmálasamtakanna, þeirra sem skipuleggja sig í samtökum, að ákveða þessa hluti. Og eins og 3. gr. er sett fram í frv. þá felur hún kvöð í sér fyrir einn stjórnmálaflokk að viðurkenna sem fullgildan félagsmann einhvern í öðrum stjórnmálaflokki. Samkvæmt 3. gr. frv. er óheimilt að banna manni að skrá sig í einn stjórnmálaflokk þó að hann sé félagi í öðrum, einum eða fleiri stjórnmálaflokkum því það segir í 3. gr. að stjórnmálasamtök skuli opin öllum landsmönnum kvaðalaust. Mér finnst þetta ekki eðlilegt skilyrði.

4. gr. finnst mér óþarfi. Það á líka að vera að mínu mati á valdi þeirra sem skipuleggja sig í stjórnmálasamtök að ákveða hvernig þeir starfa innbyrðis. Það er ekki eðlilegt að mínu viti að setja þá lögboðnu kvöð að þau skuli gæta jafnræðis meðal félagsmanna sinna. Mér finnst það ekki eðlileg krafa. Mér finnst það eðlilegt sjónarmið að menn hafi það því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera jafnræði á milli manna. En það geta verið menn í þjóðfélaginu sem vilja stofna samtök sem byggja á öðrum viðhorfum, sem finnst ekkert eðlilegt að jafnræði sé í einhverjum skilningi. Og eigum við að banna þeim að skipuleggja sig í samtök til að vinna sínum skoðun fylgi? Það finnst mér ekki. Þannig að ég mundi leggja til að 4. gr. frv. yrði felld brott.

5. gr. er að mínu viti eðlileg og sjálfsögð, að það sé skýrt kveðið á um það að óheimilt sé að skrá menn í stjórnmálasamtök að þeim forspurðum. Við höfum því miður mörg dæmi þess, einkanlega frá Sjálfstfl. sem hefur boðið ungu fólki á sínar samkomur og beitt því sem skráningu í flokkinn þannig að þegar ungmennin hafa þekkst boðið um að mæta á dansleik eða á einhverja samkomu, þá hefur það jafngilt því að vera skráð í flokkinn jafnvel þó þau hafi aldrei undirritað neitt af því tagi. Um þetta veit ég mörg dæmi, herra forseti, og veit að fleiri þingmenn eru kunnugir þessu. Mér finnst eðlilegt að reistar séu skorður við svona starfsemi af hálfu stjórnmálaflokks.

Ég vil svo segja líka, herra forseti, um 6., 7. og 8. gr. frv. að mér finnst þær óþarfar. Ég er ekki að segja endilega að ég sé ósammála því sem í þeim stendur en mér finnst þær óþarfar út frá því viðhorfi að löggjafinn á ekki að setja reglur um það hvernig samtök skipuleggja sig inn á við eða hvort að ákveðin viðhorf eigi að hafa meiri stuðning innan þeirra en önnur viðhorf. Það á að vera mál þeirra sem skipuleggja sig í félög hvernig þeir starfa og hvaða viðhorf þeir setja fram. Í því felst hugtakið félagafrelsi.

Ég er sammála því sem kemur fram í 9. gr. um að stjórnmálasamtök eigi að vera bókhaldsskyld, leggja fram ársrreikninga og framtöl að því marki sem það lýtur að skattskyldri starfsemi eins og greiðslu launa, virðisaukaskatti og því um líku. Ég er líka sammála því sem kemur fram á bls. 2 í 2. mgr. 9. gr. um að það eigi að árita reikninga stjórnmálasamtaka af löggiltum endurskoðanda og leggja þá fyrir fundi í samtökunum og þeir eigi að vera aðgengilegir almenningi. Og ég minni á það til þess að halda því til haga að í Alþb. eru ársreikningar þess áritaðir og yfirfarnir af löggiltum endurskoðendum. Ég tel því að allir landsmenn megi treysta því að þeir eru réttir.

Um II. kafla frv. um ríkisframlög til stjórnmálasamtaka vil ég segja að ég er almennt sammála því að ríkisvaldið á að styrkja stjórnmálasamtök. Þau eiga að fá framlög úr ríkissjóði til starfsemi sinnar eftir almennum reglum sem menn koma sér saman um.

Ég vil segja um þá umræðu sem varð um daginn um úthlutun þess styrks sem er á fjárlögum að nokkur tvískinnungur er í þessum málum um þessar mundir af hálfu Alþingis. Að formi til er um að ræða úthlutun fjár til þingmanna og þingflokka undir heitinu sérfræðiaðstoð og útgáfustyrkur. En ekki er um að ræða í núgildandi fyrirkomulagi að stjórnmálasamtök fái styrk. Þessu er úthlutað þannig að aðeins þau stjórnmálasamtök sem hafa fengið þingmann kjörinn eiga rétt á peningum. Ég tel það mjög bagalegt og skerða lýðræðið í landinu og möguleika til lýðræðislegrar umræðu af hálfu þeirra samtaka sem ekki hafa fengið kjörinn fulltrúa á Alþingi að þeim stendur ekki til boða neinn stuðningur af hálfu ríkisvaldsins. Það eiga að vera almennar reglur um það að slíkum samtökum standi til boða styrkur.

Ég vil gera mikinn greinarmun á framlögum til stjórnmálasamtaka annars vegar og framlögum til þingflokka og þingmanna hins vegar. Það er tvennt ólíkt að mínu viti. Það kerfi sem við höfum í dag að formi til, að styrkja þingmenn og þingflokka sem í raun er styrkur til stjórnmálaflokka, er ómögulegt kerfi. Það hefur gert þingmenn afar veika í faglegum undirbúningi þingmála og flókinni umræðu gagnvart sérfræðingum framkvæmdarvaldsins. Þingmenn hér hafa búið við fremur slæman aðbúnað að þessu leyti þó að hann hafi vissulega batnað á seinni árum. Ég nefni sem dæmi Evrópuþingið í Brussel og verður ekki dregið í efa að þar eru flokkarnir sterkar einingar sem mikið tillit er tekið til við skipulagningu þingsins. En hver þingmaður fær styrk á Evrópuþinginu. Það er styrkur til þingmannsins. Hann fær styrk. Og það er enginn smástyrkur. Það eru 700 þúsund kr. á mánuði sem eru veittar til þess að þingmaðurinn geti haldið úti útgáfustarfsemi eða sambandi við sína kjósendur eða ráðið sér aðstoðarmann. Það er hans að ákveða það.

Ég held nefnilega að við þurfum að gera hvort tveggja, skipuleggja betur stuðning Alþingis við stjórnmálastarfsemi í landinu og hins vegar skipuleggja betur stuðning við þingmenn. Ég vil leggja nokkra áherslu á það að menn beini stuðningnum meira að þingmönnum en þingflokkum. Við vitum að það er nauðsynlegt að skipa sér í flokka og það hafa mörg dæmi sannað að er nauðsynlegt til þess að ná árangri. En við verðum að hafa jafnvægi milli styrks flokksins og styrks einstaklingsins í flokknum. Mér finnst að á seinni árum hafi flokkurinn styrkst. Forustumenn stjórnmálaflokkanna hafa orðið miklu öflugri tök á sínum flokki, ákvörðunum um hvað skuli gert og ekki gert á hverjum tíma, ekki hvað síst þegar flokkarnir eru í ríkisstjórn. Staða þingmannanna innan flokksins er fremur veik. Og því meiri áherslu sem við leggjum á flokkinn þeim mun veikari verður staða hvers þingmanns. Því held ég að til þess að jafnvægi sé í þessum hlutum þurfi stuðningurinn að fylgja manninum í ríkari mæli en nú er þannig að hver þingmaður hafi nokkurt afl í sjálfum sér sem flokkinn munar um, sem hann geti beitt til þess að ná jafnvægi í völdunum, togstreitunni innan flokksins. Við megum ekki búa til kerfi sem er hannað fyrir forustumenn flokkanna. Við verðum að búa til kerfi sem gefur öllum fulltrúunum 63 sæmilega styrka stöðu til að vinna út frá. Þar með höfum við gefið kjósendunum um land allt ákveðinn áhrifamátt sem þeir annars hafa ekki.

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem fram er komið í mínu máli og vil almennt endurtaka það að ég tel rétt að skoða þetta þingmál af nokkurri alvöru og í ljósi þeirra sjónarmiða sem ég hef sett fram og þeirra athugasemda sem ég hef sett fram um einstakar greinar.