Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:09:51 (3845)

1998-02-13 15:09:51# 122. lþ. 67.7 fundur 70. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:09]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. er nú miklu betra en ég hélt og gerði mér raunverulega grein fyrir. Ég hafði satt að segja ekki hugarflug til að sjá að frv. gæti leitt til þess að fjölga félögum í Kvennalistanum um 5.000. Ég tel þetta vissulega mjög jákvætt og velti því fyrir mér hvort ekki sé hægt að búa svo í haginn að hægt sé að fjölga félögum í Kvennalistanum enn meir. Þetta er satt að segja mjög athyglisvert innlegg í umræðuna sem kemur úr frjóum huga hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, verð ég að segja.

Varðandi 10. gr. sem ég tel mjög mikilvæga í frv., þ.e. að stjórnmálasamtökum er heimilt að taka við framlagi eða ígildi þess frá einstökum aðila, einstaklingum eða fyrirtækjum þó þannig að framlagið fari ekki yfir 300.000 kr. Hv. þm. sér fyrir sér drauga í hverju einasta horni þegar hann les frv. og talar um leppa hér og þar sem munu koma þannig að stjórnmálaflokkarnir muni geta haldið því sem þeir hafa og er sjálfsagt að vitna þar til Sjálfstfl. einkum og sér í lagi. Mér finnst það ekki góð skilaboð úr þingsölum að við séum að segja að þegar við loksins mönnum okkur upp í það að setja lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna förum við á sama tíma að gefa okkur það að leið sé í þessu til að fara á bak við lögin o.s.frv. Við erum ekki eina landið sem hefur sett slíkar skorður, ef af verður. Ég vil minna t.d. á Noreg sem um síðustu áramót setti sér einmitt lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna, þar sem var að finna ákvæði um það að ef framlag frá einstaklingi eða fyrirtæki færi yfir 20 þús. norskar kr., sem er þá svipuð upphæð og hér um ræðir, skuli birta nafn viðkomandi opinberlega. Ég get nefnt fleiri lönd, ég get nefnt Bandaríkin. Upphæðin sem þar er tilgreind er alveg ótrúlega lág sem gerir það að verkum að birta þarf nafn viðkomandi opinberlega. Það má líka hugsa sér að fara þá leið að setja heildarþak á hvað stjórnmálaflokkar mega þiggja frá einstaklingum og opinberum aðilum, ef menn telja það auðveldara eftirlits.