Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:15:36 (3847)

1998-02-13 15:15:36# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:15]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það eru orðnir nokkrir dagar síðan að umræða um frv. til laga um breytingar á lögum um fæðingarorlof fór fram á Alþingi og var það í annað skipti sem frv. var á dagskrá. Ég vona að við getum lokið umræðunni í dag og komið þessu ágæta frv. til nefndar.

Ég var spurð að ýmsu í tengslum við þetta frv. og framtíðarskipun mála varðandi fæðingarorlof. Þar sem svo langt er liðið frá því að umræðan var ætla ég að fara nokkrum orðum um það sem gerst hefur á undanförnum missirum varðandi fæðingarorlofsmál. Það eru tvö ár síðan ég skipaði nefnd sem fékk það verkefni að endurskoða heildarlöggjöf um fæðingarorlof. Að því máli komu launþegar í landinu og fulltrúar atvinnulífsins og eftir mikla vinnu lauk nefndarstarfi þeirra án þess að tillögur kæmu. En það var ætlast til þess af nefndinni í fyrsta lagi að jafna rétt fólks til fæðingarorlofs og í öðru lagi að lengja hann.

Í framhaldi af því að þessi nefnd gat ekki komið sér saman um hvernig skipa ætti málum lagði ég fram frv. á Alþingi sem var samþykkt. Það var nokkur réttarbót varðandi lengingu fæðingarorlofs til fjölburaforeldra, til foreldra sem eiga veik börn, til mæðra sem eru veikar eftir fæðingu og einnig til foreldra sem taka fósturbörn. Þessu frv. var vel tekið á Alþingi og hlaut það flýtimeðferð og hefur komið mörgum til góða. Í öðru lagi lagði ég fram frv. um fæðingarorlof feðra og er það orðið að lögum að feður fá nú hálfan mánuð í fæðingarorlof.

Eftir að ljóst varð að nefndin sem ég ræddi um áðan og fékk það hlutverk að endurskoða heildarlöggjöfina, gat ekki komið sér saman hefur verið starfandi hópur innan heilbrrn., félmrn. og fjmrn. sem mun koma með tilögur um næstu skref í málinu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að fæðingarorlof er mjög mikilvægur réttur og lykill að góðu fjölskyldulífi er að foreldrar fái tíma og tækifæri til að vera samvistum við börn sín. Grundvallaratriði er að foreldrar hafi jafnan rétt til þess og það er fyrst og fremst réttur barnanna að foreldrar hafi jafnan rétt til fæðingarorlofs.

Hv. þingmenn spurðu ýmissa spurninga og 1. flm. frv., hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir, spurði hvort einhver lapsus væri varðandi framkvæmd þeirra frv. sem ég hér áður minntist á. Svo er ekki af hendi heilbrrn. eða Tryggingastofnunar. En þær breytingar sem ég lagði fram eru einungis varðandi almannatryggingakerfið, á almenna vinnumarkaðnum, því að lög um fæðingarorlof, nr. 57/1987, taka til foreldra án tillits til þess hvar þeir starfa. Í 2. gr. laganna kemur fram að foreldrar eigi rétt á fæðingarorlofi í sex mánuði, samanber þó ákvæði almannatryggingalaga um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Það er ljóst að ríkisstarfsmenn eiga sama rétt til lengingar leyfis samkvæmt lögunum og starfsmenn á almennum vinnumarkaði.

Samkvæmt starfsmannalögum frá 1996 skal samið um laun ríkisstarfsmanna í fæðingarorlofi en samkvæmt bráðabirgðaákvæði með lögum skal reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi, gilda þar til um annað hefur verið samið. Þar sem ekki hefur verið samið um breytingar á þessum rétti eiga ríkisstarfsmenn, sem eiga rétt á framlengingu leyfis samkvæmt breytingum á fæðingarorlofslögum sl. vor, því einungis rétt á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins þegar launagreiðslum samkvæmt reglugerðinni sleppir. Kjarasamningar ríkisstarfsmanna eru sem kunnugt er á forræði fjmrh. og því rétt að fyrirspurnin sem slík beinist til fjmrn. því að ég get aðeins svarað fyrir það sem kemur inn á svið Tryggingastofnunar eða almannatryggingakerfisins.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði einnig nokkurra spurninga, m.a. hver væri framtíðarsýn þeirrar sem hér stendur varðandi fæðingarorlof. Ég hef nú þegar rakið það. Mín framtíðarsýn er sú að meiri jöfnuður ríki varðandi fæðingarorlof og að í framhaldi af því verði fæðingarorlof lengt.

Hv. þm. spurði einnig að því hvort tilskipunum Evrópusambandsins sé fullnægt og hvort mér sé kunnugt um þær tilskipanir. Mér er kunnugt um þær. Ég hef einmitt fengið álit lögfræðinga á því hvort við fullnægjum þeim tilskipunum og með leyfi hæstv. forseta mun ég lesa upp það lögfræðiálit:

,,Eins og áður hefur komið fram er íslenska kerfið að mörgu leyti ólíkt því sem gerist í löndum innan ESB og EES. Miðað við þau lönd má telja að réttur foreldra í fæðingarorlofi sé allvel tryggður hér á landi þannig að fæðingarorlof er lengra hér á landi en í flestum aðildarlöndum ESB. Réttur láglaunakvenna og kvenna í hlutastarfi er sennilega betur tryggður en víðast annars staðar og sama er að segja um rétt námsmanna. Sé hins vegar eingöngu litið til annarra norrænna landa eru greiðslur þar, a.m.k. til kvenna sem hafa miðlungstekjur eða hærri, mun hærri en kvenna á almennum vinnumarkaði hér á landi.``

Þetta svarar fyrirspurn hv. þm. um það hvort að við séum ekki samkvæmt lögum og reglum að uppfylla þau skilyrði sem okkur eru sett. En aðalatriðið er, eins og ég kom inn á, að mjög mikilvægt er að jafna þennan rétt og ég tel mjög mikilvægt að frv. sem hér liggur fyrir fari fljótt til hv. heilbrn. til umfjöllunar. Auðvitað er gengið töluvert langt í þessu frv. og í öðru skemur. Mér finnst t.d. það sem kemur fram í 2. gr. frv. vera mjög til athugunar, þ.e. að konur fái fæðingarorlof mánuði áður en þær eignast barnið. Þetta tókum við einmitt fyrir í þessari margumræddu nefnd sem ég skipaði. Þá var það álit þeirra sem þar sátu að ekki ætti að lögfesta þetta. En mér finnst gott að þetta komi fram í þessu frv. því að mér finnst rétt að endurskoða það.