Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:24:09 (3848)

1998-02-13 15:24:09# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þá ræðu sem hún flutti hér og við erum kannski nokkurs vísari um skoðun hennar á þessu máli. Þó vildi ég spyrja hana um þennan hóp félmrn., fjmrn. og heilbrrn. sem er að skoða næstu skref í málinu. Hvert er markmiðið hjá hópnum? Hefur ráðherra sett þessum hópi erindisbréf? Og að hverju er þessi hópur að vinna? Er hann að skoða hvernig eigi að skipuleggja vinnubrögðin varðandi það að leggja drög að framtíðarfyrirkomulagi þessara mála? Er hann að vinna að undirbúningi löggjafar? Vinnur þessi hópur í samráði við aðila vinnumarkaðarins og hver er hugsunin þarna á bak við? Hvenær á hópurinn að skila af sér?

Mér finnast verkefni þessa starfshóps mjög óljós og mér líst satt að segja ekki vel á að það séu bara fulltrúar þriggja ráðuneyta sem séu að koma sér saman um skipulag á fæðingarorlofsmálum. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef t.d. á að halda stjórnarandstöðunni frá því eða, að ég tali nú ekki um, aðilum vinnumarkaðarins.

Varðandi tilskipunina sem ráðherra nefndi þá stendur að aðildarfélögin séu skyldug að lögbinda a.m.k. 14 vikna fæðingarorlof með óskertum launum. Þótt fólk á almennum vinnumarkaði sem er kannski með 80--90 þús. kr. mánaðarlaun, hafi lengra fæðingarorlof en 14 vikur þá er það ekki með fyrstu 14 vikurnar t.d. á óskertum launum. Ég lít a.m.k. þannig á þessa tilskipun að það þurfi að lögbinda a.m.k. 14 vikna fæðingarorlof með óskertum launum eða dagpeningum, eins og hér stendur. Mér finnst það því ekki vera fullnægjandi sem fram kom í svörum ráðherra varðandi þetta atriði, jafnvel þó að hún hafi látið lögfræðing skoða það.

Ég spyr um þessi tvö atriði, herra forseti.