Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:31:33 (3852)

1998-02-13 15:31:33# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:31]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um fæðingarorlof, að ég held í þriðja sinn til 1. umr. eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra.

Ég er 1. flm. þessa frv. en einnig flytja fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna frv. með mér ásamt Kristínu Halldórsdóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur.

Þegar ég mælti fyrir málinu 28. janúar sl. endaði ég á að gera grein fyrir forsendum kostnaðar án þess að setja fram nákvæma kostnaðaráætlun. Ég endaði á því að þrátt fyrir mikinn kostnað sé nauðsynlegt að leggja traustan grunn að tengslum milli foreldra og barna á fyrsta æviárinu því vanræksla og þeytingur á ungbörnum mun koma niður á þessum einstaklingum, foreldrum þeirra og öllu þjóðfélaginu ella síðar. Því tel ég að við verðum að setja markmiðið hátt að þessu leyti eins og önnur Norðurlönd hafa gert og tímabært að jafna kjör allra íslenskra foreldra, og þá á ég við að jafna þau upp á við, og lengja orlofið upp í 12 mánuði í áföngum á fullum launum með sjálfstæðum rétti beggja foreldra. Þetta er mjög mikilvægt uppeldismál fyrir þjóðfélagið allt og um leið stórt skref til jafnréttis kynjanna. Fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokkanna standa að þessu máli og því er það von mín að það fái góðar undirtektir í þinginu.

Veruleg umræða um fæðingarorlof á sér nú stað í velflestum OECD-landanna, um vaxandi atvinnuþátttöku kvenna á öllum sviðum og þá kröfu að foreldrar sitji við sama borð varðandi réttindi og skyldur til fæðingarorlofs. Stórfyrirtæki og atvinnurekendur sýna málinu yfirleitt mikinn áhuga því mikið er í húfi, ekki síst þegar um sérhæfðan mannafla er að ræða. Fæðingarorlofskerfið hefur ekki þróast í takt við breytingarnar í þjóðfélaginu. Fólk eignast æ færri börn, foreldrar af báðum kynjum vinna að jafnaði utan heimilis og æ fleiri líta á það sem sjálfsögð mannréttindi barna jafnt sem mæðra og feðra að fá að njóta samvista á fyrsta æviári barnsins. Ekki verður lengur unað við ríkjandi ástand og því er þetta frv. flutt.

Á nýlokinni ráðstefnu um heilbrigði kvenna kom til umræðu hin þreytta ofurkona nútímans, sem hefur reyndar borið á góma í þingsölum áður, og versnandi lífslíkur íslenskra kvenna, en lífslíkur þeirra hafa hrapað úr 1. sæti OECD-landanna í það 10. á tíu árum. Á þessari ráðstefnu var því haldið fram að lykilatriðið til að jafna álag vegna heimilisstarfa og uppeldis barna sé einmitt það að báðir foreldrar fái fæðingarorlof í 12 mánuði alls. Það var starfsmaður karlanefndar sem hélt þessu fram og mælti með að mæður fái fjóra mánuði, feður fjóra mánuði og síðan gætu þau skipt með sér fjórum mánuðum. Hér er lagt til að mæðrum verði tryggðir sex mánuðir, feður fái sérstakan rétt til þriggja mánuða, og þrír mánuðir verði valfrjálsir fyrir foreldra. Niðurstaðan gæti verið sú sama, en meginástæðan fyrir því að mæðrum eru hér tryggðir sex mánuðir er í fyrsta lagi það sjónarmið að konur þurfa að fá tækifæri til að jafna sig eftir barnsburð, þ.e. umfram feður, og að barnið þarf oft sérstaklega á móður sinni að halda vegna brjóstagjafar. En það breytir ekki því að þetta frv. getur alveg samræmst því að foreldrar skipti þessu jafnt á milli sín. Ég tel að þótt sjónarmiðið sé athyglisvert, sem kom fram á þessari ráðstefnu, sé það kannski fullmikil bjartsýni að telja að þetta leysi öll vandamál ofurkonunnar. En það var mjög skemmtileg tilviljun að á sama tíma og þessi ráðstefna stóð yfir var einmitt verið að mæla fyrir þessu frv. hér á þinginu.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég vil bæta við spurningu sem kemur til vegna nýfallins hæstaréttardóms, sem reyndar féll í millitíðinni frá því málið var rætt fyrst, þ.e. í máli 208/1997, kærunefnd jafnréttismála gagnvart Sigurði Torfa Guðmundssyni. Telur ráðherra að þessi dómur kalli á frekari endurskoðun á lögum um fæðingarorlof en stefna ríkisstjórnarinnar segir til um? Ég er þá að vitna til fyrirliggjandi jafnréttisáætlunar, en í þeirri áætlun verður ekki séð að ætlunin sé að lengja orlofið, eins og ráðherra hélt fram áðan, heldur eingöngu að jafna rétt foreldra. Það kemur heldur ekki skýrt fram að ætlunin sé gera sjálfstæðan rétt feðra mun sterkari en hann er núna, þ.e. þessar tvær vikur. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort sá dómur breyti einhverju eða hvort áhrifin verði eingöngu þau að ríkisstarfsmenn, feður, geti tekið hluta af rétti sem eiginkonur þeirra eiga í raun og veru, þ.e. þeir geti tekið hluta orlofsins á launum.

Mér finnst sú upplýsing sem kom fram hjá ráðherranum áðan mjög athyglisverð að lagabreytingin varðandi nýburana tryggi ekki laun, þ.e. að allir ríkisstarfsmenn sem nú eru í fjölburafæðingarorlofi eða bankastarfsmenn, eða þingmenn þess vegna, fái eingöngu greidd laun samkvæmt ákvæðum Tryggingastofnununar en ekki full laun eins og samningar þeirra gera að öðru leyti ráð fyrir. Þetta tel ég mikinn lapsus og nauðsynlegt að breyta.

Tíðkast hefur á Alþingi að frv. um fæðingarorlof hafi fengið umfjöllun í heilbr.- og trn. Ég tel að þetta frv. eigi að fara í þá nefnd en þar sem hér er í raun og veru um mjög mikilvægt vinnumarkaðsmál að ræða líka, mæli ég með því að nefndin fái umsögn félmn. jafnframt því að þetta tengist beint atvinnureynslu og réttindum á vinnumarkaði. En það er ljóst að þessi mál heyra nú undir kjarasamninga, meira og minna, t.d. ríkisstarfsmanna, og þar sem þeir eru fastir til ársins 2000 er ljóst að þessu verður ekki breytt nema með lögum fyrir þann tíma.

Þess má geta að í áðurnefndri jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar frá 1998 til 2001 er gert ráð fyrir að reynsla af því að feður fái tveggja vikna fæðingarorlof verði metin í byrjun árs 1999 með viðtölum og spurningum til þeirra sem orlofsins nutu á árinu 1998. Þetta tel ég lofsvert og minnir á merka tilraun sem nú er verið að gera í Reykjavíkurborg með styrk frá Evrópusambandinu. Vonandi verður sú tilraun og tilheyrandi rannsókn til þess að fleiri sveitarfélög en Reykjavík og Reykjanes taki sig á í því að heimila feðrum að taka fæðingarorlof og helst ætti sá réttur að verða óháður rétti móður. Mín tilfinning er sú að þetta þyki æ sjálfsagðara mál og fyrst og fremst sé spurning um hvenær nægilegur pólitískur vilji verði til staðar til að koma fæðingarorlofsmálum í viðunandi horf, ekki hvort.

Það er ekki að sjá á áðurnefndri jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin stefni hátt í þessum málum, því miður. Eingöngu er lagt til að jafna rétt foreldra, það er ekki ljóst hvort á að jafna rétt feðra og mæðra og ekkert kemur fram um lengingu. En ég fagna því sem segir í lið 6.5. um feðrafræðslu til verðandi feðra.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta mál sé mikilvægt og það er í raun og veru mjög ergilegt hve umræðan teygðist yfir á marga daga, því hún kristallaðist kannski aldrei almennilega. Ég vil að lokum mælast til þess að frv. fái ítarlega umfjöllun í nefnd og verði sent út víða og vona að það fái góða umfjöllun.

Varðandi athugasemdir hæstv. ráðherra um 2. gr., þá tel ég að þar sé helsta nýmælið að feður fái tveggja vikna fæðingarorlof eins og kemur fram í greinargerð. Önnur nýmæli eru ekki að mínu mati í þeirri grein.