Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:42:52 (3853)

1998-02-13 15:42:52# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:42]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði spurninga varðandi hæstaréttardóm sem féll fyrir nokkrum dögum og hvort sá dómur muni hafa áhrif á framhaldið varðandi fæðingarorlofsmál. Ég býst við að svo sé, en það er of fljótt að segja til um það. Þarna féll dómur varðandi ríkisstarfsmann og eðlilegt að húsbóndi þess ríkisstarfsmanns svari því.

Hv. þm. minntist á ráðstefnu sem haldin var um heilsufar kvenna og þar var réttilega rætt um að þetta væri einn af mörgum lyklum til farsælla fjölskyldulífs, eins og hv. þm. sagði, að lengja fæðingarorlof. Hv. þm. talaði um að ríkisstjórnin væri ekki metnaðarfull í tillögum sínum. Ég tel það ekki vera rétt og tel að ríkisstjórnin hafi sýnt vilja sinn í verki með því að lengja fæðingarorlof hjá þeim sem mest þurfa á þeirri lengingu að halda og það hafi verið mjög mikilvægt skref. Ríkisstjórnin hefur þó borið gæfu til að setja í lög að feður fá fæðingarorlof í fyrsta skipti, þótt ekki sé það langt. Ég tel því að nú þegar sé búið að stíga mjög mikilvæg skref og næsta skref sé jöfnunin, áður en við tökum lenginguna. Jöfnunin er auðvitað geysilega mikilvægt jafnréttismál fyrir foreldra.