Fæðingarorlof

Föstudaginn 13. febrúar 1998, kl. 15:44:52 (3854)

1998-02-13 15:44:52# 122. lþ. 67.6 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur

[15:44]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur ríkisstjórnin stigið lítil skref í rétta átt. Þó er þar á verulegur annmarki að ekki skuli jafnframt hafa verið tryggt að sömu laun væru greidd fyrir viðbótarmánuðina og fyrir hina.

Ég fagna því hinum fremur jákvæða tón hjá hæstv. ráðherra vegna þessa frv. Ég tel að mikilvægt sé að við komumst á svipaðan stall í umræðunni og nágrannalöndin. Það er langt frá því að svo sé.

Mér er kunnugt um að áherslur ráðherrans á jöfnun hafa verið túlkaðar þannig að verið sé að jafna niður á við. Auðvitað kemur það ekki til greina að þeir sem hafa samið um sex mánuði fari að skerða sín kjör. Annað kostar peninga og það virðist ekki hafa verið vilji fyrir því. En ég get vissulega sætt mig við að fyrsta skrefið yrði að allir fengju sex mánuði á fullum launum og síðan yrði farið í að lengja það.

Ég vil endurtaka fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur frá því áðan. Þýða þessar góðu undirtektir að ráðherrann sé tilbúinn að hleypa fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna að endurskoðun á stjórnarfrumvarpi um fæðingarorlof?