Ofgreidd skráningargjöld

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:08:34 (3863)

1998-02-16 15:08:34# 122. lþ. 68.1 fundur 221#B ofgreidd skráningargjöld# (óundirbúin fsp.), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en heldur þótti mér þau ófullkomin. Mér finnst skipta töluverðu máli hvort fólk er að borga það sem því ber eða hvort verið er að innheimta fjárkröfur sem er ekki lagaheimild fyrir. Það er alveg óskiljanlegt að fjmrn. og starfsmenn þess og þar með húsbóndinn á heimilinu, hæstv. fjmrh., fylgist ekki með hvenær heimildir til fjárkrafna eru afnumdar með lögum. Ég hygg að fjmrn. hafi gengist fyrir þeirri lagasetningu sjálft.

Ég ítreka spurningu mína til ráðherra því að það er ekkert smámál. Sagði hann virkilega að það væri óljóst hvort fólkið sem er búið að borga þetta án heimilda í lögum fái fjármuni sína endurgreidda og ekki sé víst að tryggt verði að annað eins og þetta geti ekki komið fyrir aftur? Heyrði ég þetta virkilega rétt, hæstv. ráðherra?