Ofgreidd skráningargjöld

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:09:55 (3864)

1998-02-16 15:09:55# 122. lþ. 68.1 fundur 221#B ofgreidd skráningargjöld# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég get ekkert sagt um hvort endurgreitt verði lengra en í tvö ár aftur í tímann. Ég þarf að skoða þetta tilvik til þess að ég geti svarað því. Það sem ég sagði um það hvort slíkt mundi endurtaka sig var eingöngu það að ég hygg að enginn, ekki einu sinni hv. fyrirspyrjandi, geti tekið á sig ábyrgð á því að það gerist ekki einhvern tíma í framtíðinni að innheimt séu gjöld sem eru ekki gjaldbær af ýmsum ástæðum.

Þessi mál eru að því leyti til sérstök, hæstv. forseti, að hér er um að ræða svokölluð þjónustugjöld sem er safnað saman í lagabálk, aukatekjur ríkissjóðs, og sá lagabálkur er undirbúinn í mismunandi ráðuneytum þó að fjmrh. fari með framkvæmd málanna. Ég veit ekki einu sinni á þessari stundu hvort þetta gjald hvarf úr lögunum fyrir mistök eða hvort það var gert vegna þess að um það var beðið af hálfu viðkomandi ráðuneytis.

Ef hv. þm. og aðrir vilja fá frekari upplýsingar er að sjálfsögðu opin leið að koma með fyrirspurn sem verður þá svarað eftir venjulegum leiðum.