Heimsmet Völu Flosadóttur

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 15:25:11 (3874)

1998-02-16 15:25:11# 122. lþ. 68.1 fundur 224#B heimsmet Völu Flosadóttur# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[15:25]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Nú um helgina gerðist það að ung, glæsileg, íslensk kona, Vala Flosadóttir, setti heimsmet í stangarstökki kvenna. Það er sannarlega glæsilegur árangur og ekki síst fyrir það að þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem þessi unga stúlka setur heimsmet. Það er afskaplega mikils virði fyrir ungt fólk og þjóðina í heild að eignast heimsmethafa og er sannarlega ekki daglegur viðburður. Ég minni á að rannsóknir, m.a. frá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, sýna að ungu fólki sem tekur virkan þátt í íþróttum vegnar almennt betur í námi og betur í lífinu almennt. Ekki leikur nokkur vafi á því að afrek eins og það sem Vala Flosadóttir vann um helgina virkar hvetjandi á ungt fólk hjá okkur í dag og ekki síst á ungar konur eða ungar stúlkur. Þær sömu rannsóknir og ég vitnaði til sýna nefnilega að þátttaka kvenna í íþróttum er heldur minni en meðal karla og þeim hættir frekar til þess að hætta að stunda íþróttir. Þess vegna, herra forseti, er afrek það sem Vala Flosadóttir vann núna um helgina alveg einstakt.

En nú er það svo að hún nýtur kannski ekki jafnræðis á við aðra afreksmenn þar sem í ljós hefur komið að afreksmannasjóður ÍSÍ er nokkuð vanburðugur til þess að taka við enn einum afreksmanninum. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh., ráðherra íþróttamála, hvort hann hyggist á einhvern hátt sýna heimsmethafa okkar Íslendinga sérstakan sóma og þá hvort í bígerð sé almenn stefnumörkun varðandi afreksfólk í íþróttum sem er þjóðinni afskaplega mikilvæg.