Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 16:23:45 (3880)

1998-02-16 16:23:45# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[16:23]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta nokkuð greið afgreiðsla hæstv. forseta á tillögum sem einn þingmaður flytur þó hann sé 1. þm. Suðurl. og dómsmrh. Ég sé ekki betur en að ráðherrar eigi að sitja í þessum efnum við sama borð og aðrir þingmenn. Ég tel reyndar að málið sé svo alvarlegt eftir þann áburð sem hefur komið fram frá hæstv. dómsmrh. á Ríkisendurskoðun að taka verði það sérstökum tökum og það sé algerlega út í hött að ímynda sér að einhverjir lögfræðingar úti í bæ, þótt þeir séu hjá Lagastofnun háskólans, geti greitt úr þessum ágreiningsefnum. Ég sé ekki betur en málið liggi þannig, miðað við þann heiftarlega áburð sem kemur fram frá ráðherrunum á Ríkisendurskoðun, að það verði að setja í þetta sérstaka rannsóknarnefnd því að það er alveg útilokað fyrir Alþingi að sitja undir því að deilum við stofnun eins og Ríkisendurskoðun sé skotið til Lagastofnunar háskólans. Það getur ekki dugað Alþingi Íslendinga. Ef ekki verður kosin sérstök rannsóknarnefnd í málið, sem ég teldi koma til greina, þá fyndist mér að það kæmi til greina að fara fram á það við nefnd eins og t.d. efh.- og viðskn. að hún fari í málið og rannsaki aðstæður þess. En ég tel fráleitt að afgreiða ósk einstaks þingmanns og ég legg hér með fram, herra forseti, ósk mína um að fram fari könnun á því í forsn. hvort ekki á að taka ákvörðun um sérstaka rannsókn og sérstaka rannsóknarnefnd í þessu máli. Ég tel að sú ósk hljóti að vera alveg nákvæmlega jafnrétthá og ósk hv. 1. þm. Suðurl., hæstv. dómsmrh.