Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 16:54:14 (3883)

1998-02-16 16:54:14# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Lengi hefur verið gagnrýnt og með réttu á Alþingi að staða löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu sé allt of veik. Hluti svars við þeirri gagnrýni var að samkomulag varð um það meðal allra þingflokka að gera Ríkisendurskoðun að sjálfstæðri stofnun sem heyrði undir Alþingi, undir löggjafarvaldið, í stað þess að hún starfaði á vegum framkvæmdarvaldsins eins og áður. Þessi breyting var gerð, ekki síst að tilhlutan hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar á sínum tíma, og allir voru mjög sáttir við. Áðan tók hæstv. ráðherra hins vegar svo til orða að það hefði gerst æ ofan í æ síðan þessi breyting var gerð að Ríkisendurskoðun, stofnun á vegum Alþingis, grafi undan því starfi sem unnið er í ráðuneytinu. Það eru stór orð, herra forseti, að það gerist æ ofan í æ að Ríkisendurskoðun grafi undan því starfi sem unnið er í Stjórnarráði Íslands af framkvæmdarvaldinu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað hann á við með þessum orðum. Ég ætla að óska eftir því að hann greini Alþingi Íslendinga frá þeim dæmum sem hann hefur fyrir því að þessi stofnun á vegum Alþingis hafi æ ofan í æ grafið undan því starfi sem unnið er í ráðuneytinu. Æ ofan í æ, sagði hæstv. ráðherra. Ég óska eftir að hann geri þinginu grein fyrir því við hvað hann á og tilfæri þau dæmi þar sem hann telur að Ríkisendurskoðun og starfsemi hennar hafi grafið undan starfi Stjórnarráðs Íslands.