Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 16:56:24 (3884)

1998-02-16 16:56:24# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[16:56]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi og ég hygg að við höfum báðir staðið að því en tillagan kom m.a. frá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni. Síðan hefur það hins vegar gerst að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hafa verið lagðir af og innan þingsins er enginn lengur sem tekur afstöðu til þeirra álita sem koma frá Ríkisendurskoðun og það er ekki hægt að búa við það.

Ég sagði að í vissum tilvikum hefði Ríkisendurskoðun, því miður, grafið undan starfsemi framkvæmdarvaldsins en ég bætti því líka við, sem ekki kom fram hjá hv. þm., að í mörgum tilvikum væri gagnrýnin afar gagnleg en þá hefði Alþingi ekki tæki til þess að koma sjónarmiðum sínum formlega á framfæri. Ég get rakið fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi varðandi Ríkisendurskoðun þar sem hún hefur greinilega haft rangt fyrir sér. Ég get líka bent á fjölmargt sem hefur komið frá Ríkisendurskoðun sem er mjög gagnlegt. Ég get lýst því yfir að við höfum átt fundi með Ríkisendurskoðun á mínum langa starfsferli og margt ágætt hefur komið út úr þeim fundum. Það sem skiptir máli og það sem ræða mín gekk út á þegar ég var að ræða um þennan þátt er að Alþingi Íslendinga verður að taka á málinu með því að setja nefnd sem fer yfir álitin þannig að hægt sé að ræða við málsaðila og bregðast við með einhverjum hætti en skilja ekki mál eftir eins og nú hefur gerst. Í þessu máli deila tveir aðilar með mismunandi sjónarmið og enginn endanlegur dómur um það hver hafi haft rétt fyrir sér er felldur. Þetta var mergur málsins í minni ræðu og ég vonast til þess og spyr hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér um það að tími sé kominn til að gera þessar breytingar á þingsköpum.