Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:18:50 (3889)

1998-02-16 17:18:50# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra viðurkennir tvennt. Hann telur óeðlilegt að tvö ár hafi liðið frá því að fjárnám var gert og þar til skuldabréfin fóru á uppboð. Þetta var eitt aðaðlatriðið í máli mínu. Það var mjög óeðlilegt að ekkert skyldi gert á þessum tíma.

Hæstv. ráðherra viðurkennir líka að vörslumenn ríkissjóðs hafi á uppboðinu ekki staðið sig sem skyldi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er það gegnumgangandi og eins hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað að ekki er talið eðlilega staðið að þessu uppboði. Hæstv. ráðherra viðurkennir það. Hann viðurkennir að tilboðið, 50 þús. kr., hafi gefið tilefni til að fresta nauðungaruppboðinu. Þarna liggja fyrir tvö stór atriði sem við höfum gagnrýnt. Hæstv. fjmrh. viðurkennir að þetta séu réttar ábendingar, réttmæt gagnrýni sem hér hafa komið fram á þessi tvö atriði.

Ég vil spyrja ráðherra, af því að það virðist koma fram í síðustu greinargerðum ráðherranna. Kannski eiga þær eftir að verða fleiri. Vissi fjmrn. að fjárnámið, sem þeir gera svo mikið með nú, var fallið úr gildi? Ef þeir hefðu vitað að fjárnámið var fallið úr gildi, þá hefðu þeir orðið að svara sýslumanninum öðruvísi.