Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:46:53 (3897)

1998-02-16 17:46:53# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:46]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég sagði áðan um bréfin er ekki það að greitt hefði verið strax af þeim. Ég vitnaði orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 3 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Sú afborgun, sem er sú eina sem þegar er gjaldfallin, u.þ.b. 14 milljónir kr., var greidd af báðum bréfunum til fjárnámshafa, þ.e. innheimtumanns ríkissjóðs árið 1997.`` Þetta var það sem ég sagði. Ég notaði aldrei orðið strax.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að þetta er auðvitað tiltekið lykilatriði í málinu. Bersýnilegt var að ef staðan var þannig að ríkissjóður hafði tak á þessum bréfum þá gat hann gert sér vonir um að vera að fá peninga og það var það sem ríkissjóður og fulltrúar hans í þessu tilviki vanrækja, þ.e. að sækja fjármunina þannig að þeir gæta ekki hagsmuna skattgreiðenda og þjóðarinnar. Það er aðalniðurstaða Ríkisendurskoðunar í málinu að þeir gæta ekki hagsmuna skattgreiðenda og þjóðarinnar. Ég held að það sé alveg skýrt af þeim umræðum sem hafa farið fram í dag þrátt fyrir þessa pólitísku árás á Ríkisendurskoðun sem ráðherrarnir hafa flutt í dag, þær hafa engu breytt um þetta aðalatriði. Frammi fyrir þjóðinni liggur það fyrir að skuldir og vanskil, m.a. skattsvikum, eru upp á 150 millj. kr. Í staðinn fyrir að sækja þá peninga sem eru hugsanlega til upp í þær upphæðir láta menn það undir höfuð leggjast. Það er stórkostlega gagnrýnivert, m.a. frá sjónarmiði þeirra Íslendinga sem verið er að rukka harðri hendi af skattkerfinu út um allt land um þessar mundir og formaður Sjálfstfl. að reyna að gera sig dýrlegan í augum skattgreiðenda á einhverri ráðstefnu um að það þurfi nú að sýna þeim sérstaklega tillitssemi, stuðning og jafnvel allt aðra stöðu en gert hefur verið af fjmrn. Á sama tíma og þetta er gert er sagt við þessa aðila sem eru með hrikalegri skattaskuldir á bakinu en nokkur annar: Þetta er allt í lagi. Þið sleppið þó að bréfin hafi verið keypt á 50 þúsund kall. Það er þetta sem þjóðin sér og pólitískar varnarræður þeirra félaganna duga ekki til að verja.