Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 17:52:53 (3900)

1998-02-16 17:52:53# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[17:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram vegna ræðu hv. þm. að ég hafði fyrr í umræðunni svarað því vegna fyrirspurna frá hv. 4. þm. Suðurl. að embættismenn dómsmrn. hafa tjáð mér að þeir þekki engin dæmi þess, a.m.k. ekki síðustu 10 ár, að dómsmrn. hafi gert samninga um greiðslu sekta og ávirðingar sýslumannsins séu þess vegna rakalausar um þetta atriði. Hins vegar eru ugglaust dæmi um það áður en lögunum var breytt 1997 að dómsmrn. hafi leiðbeint einhverjum sýslumönnum um það hvernig þeir gátu gert samninga innan þágildandi reglna og venja og innan hvaða marka. En enga slíka samninga virðist dómsmrn. hafa gert og þessu hef ég þegar svarað í umræðunni.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að minna hv. þm. á er þetta: Gert var fjárnám í skuldabréfunum vegna sektargreiðslna og nú er verið að gera kröfu til þess við okkur að við hefðum lagt fram peninga á uppboðinu til að taka skuldabréf til 20 ára sem greiðslu á sekt. Þetta hefði leitt til alveg óþolandi mismununar og óeðlilegrar fyrirgreiðslu við þennan tiltekna aðila. Engin lög heimila að taka skuldabréf til 20 ára sem greiðslu á sekt og við erum að verjast því að gerð sé til okkar sú krafa að við veitum þessum aðila fyrirgreiðslu af þessu tagi. Það er allt og sumt sem við erum að gera. Við erum að víkja okkur undan þeirri kröfu að til okkar sé gerð sú krafa að við veitum þessum eina aðila þá einstöku fyrirgreiðslu að við leggjum út fjármuni til þess að hann geti lagt fram skuldabréf til 20 ára í þeim tilgangi að greiða upp sekt. Við erum að verjast þessu. Ásakanirnar á Ríkisendurskoðun eru ekki annað en þetta, að við erum að víkja okkur undan því að standa að svo einstakri fyrirgreiðslu og mismunun gagnvart þeim sem standa í slíkum sporum.