Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:43:40 (3910)

1998-02-16 18:43:40# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ótrúlegt hvernig sumu fólki getur skjöplast. (MF: Hvað stendur í skýrslunum?) Það getur vel verið að hv. þm. sé ekki að lýsa eigin skoðunum heldur að reyna að lesa upp úr skýrslum. En ég verð að taka það samt þannig að hv. þm. geri þessa skoðun að sinni.

Í hverju brást fjmrn.? (Gripið fram í: Hagsmunir.) Og í hvaða hagsmunagæslu? Allar kröfurnar í málinu eru kröfur sem ríkisvaldið á. Er það að bregðast hagsmunavörslu að fela sýslumanninum það sem hann fékk í svari frá fjmrn. og hefur löngum komið fram, að hann eigi að athuga það sjálfstætt og sjálfur hvort einstaklingurinn eigi rétt á því að greiða þessa skuld á undan hinni? Er það að bregðast einhverju? (MF: Það er í niðurstöðu Ragnars Halls.) Niðurstaða Ragnars Halls lá ekki fyrir fyrr en löngu eftir að atburðurinn átti sér stað og löngu eftir að sjálft uppboðið fór fram. (SvG: Hvað með það?) Hvað með það? Það var auðvitað ekki hægt að skoða það þá fyrir fram af því að álitið kemur löngu löngu seinna. (SvG: ...hljóta að vita þetta.) Ég tel það í raun og veru lagalegt hlutverk sýslumannsins að ákveða í hvaða röð eigi að greiða kröfur til ríkisins því að þó að þarna sé um að ræða tvo arma ríkisvaldsins, þá er hann eini maðurinn sem á að gæta þess samræmis.

Málið er sáraeinfalt. Það eru ákveðnir fjármunir til skipta. Þeir fara til ríkisins annaðhvort í formi sekta eða skattkröfu og það eina sem situr eftir er það hvort sektin greiðist eða ekki. Það eru tveir möguleikar til. Viðkomandi fer í fangelsi, tekur vararefsinguna út, eða þá að sektin er greidd. Mín trúa er sú að frá upphafi --- og það hafi ráðið því að þessi krafa kom fram hjá viðkomandi aðila og beiðni til sýslumannsins hafi byggst á því --- hafi ætlun þessara manna verið að borga sektarkröfuna. Sé sú niðurstaðan þá er málið ósköp einfalt. Ríkið hefur hirt allar eignirnar sem voru í búinu og það er kannski það sem skiptir máli.