Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:45:53 (3911)

1998-02-16 18:45:53# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:45]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Af þessum skoðanaskiptum er auðvitað ljóst að ríkið er að tapa fjármunum sem það hefði getað fengið í hendur ef það hefði stundað eðlilega starfshætti.

En það sem ég ætla að vekja athygli á í sambandi við orð hæstv. fjmrh. áðan er aðallega hugmynd hans um óháða lögfræðilega úttekt. Satt að segja sé ég ekki í fljótu bragði hvernig hún á eiginlega að fara fram. Hvar eru þessir óháðu lögfræðingar sem eiga að geta beitt sér fyrir þessari úttekt? Það getur svo sem vel verið að þeir séu til. Er hugsanlegt að fara einhvern veginn öðruvísi í þetta mál?

Væri hægt, eins og við nefndum fyrr í dag, að láta þingnefnd fara í málið? Eða er hugsanlegt að taka hæstv. fjmrh. á orðinu? Er hann tilbúinn að taka þátt í að breyta þingsköpum á þeim vikum sem eftir eru af sitjandi þingi? Ekki til að taka á þessari skýrslu vegna þess að hún er sérmál. Þessi skýrsla er orðin stórpólitísk eftir málflutning ráðherranna. Eru þeir tilbúnir til að beita sér fyrir því, í samvinnu við stjórnarandstöðuna og aðra hér, að nefnd til að fara yfir svona skýrslur verði til á þeim dögum sem eftir eru af sitjandi þingi? Ég held að ef umbótavilji hæstv. fjmrh. er einhver, þá sé nauðsynlegt að fá það alveg skýrt fram hvort hann er tilbúinn að fylgja því máli eftir.