Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:47:34 (3912)

1998-02-16 18:47:34# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru tvö mál. Annars vegar er spurningin, hvað eigi að gera við þessar skýrslur og greinargerðir sem eru orðnar nokkuð margar í þessu máli. Mín skoðun er sú að það verði ekki hjá því komist úr því sem komið er, að leggja þá þraut fyrir óháða lögfræðinga. Málið hefur farið í þann farveg að ég tel það alveg óhjákvæmilegt. Hvort þingið tekur síðan málið upp, læt ég ósagt.

Það á hins vegar ekki að koma hv. þm. á óvart að heyra að ég styð breytingar á þingsköpum. Ég hef beðið um þessar breytingar árum saman. Ég hef skrifað um það greinar, látið það í ljós í blaðaviðtölum, ég hef flutt margar ræður á Alþingi og sagt bráðnauðsynlegt að setja hér upp nefnd, svipaða þeirri sem kölluð er kontrollkomité í Noregi, sem tæki fyrir álit Ríkisendurskoðunar. Það er óþolandi, jafnt fyrir Ríkisendurskoðun, Alþingi og framkvæmdarvaldið að ekki komi formlegt álit frá Alþingi um skýrslur Ríkisendurskoðunar.

Að sjálfsögðu styð ég að gerðar verði breytingar á þingsköpum og slík nefnd sett á laggirnar. Ég get auðvitað ekkert lofað því hér og nú nákvæmlega hvernig sú nefnd á að vera eða hvort ég ætla að eiga eitthvert samstarf við stjórnarandstöðuna. Málið er í höndum forsn. og tel ég því miður málið hafa verið allt of lengi í höndum hennar.