Uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi

Mánudaginn 16. febrúar 1998, kl. 18:49:05 (3913)

1998-02-16 18:49:05# 122. lþ. 68.92 fundur 220#B uppboð á skuldabréfum ÞÞÞ á Akranesi# (umræður utan dagskrár), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 122. lþ.

[18:49]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég náði nú ekki alveg þessu síðasta skoti um að málið hefði verið of lengi í höndum forsn. Ég vil aðeins rifja það upp að við höfum alllengi haft í gangi endurskoðun á þingsköpunum. Fyrir nokkrum dögum komu upp hugmyndir um að nauðsynlegt væri að endurskoða þingsköpin, aðallega vegna þess að stjórnarliðið taldi stjórnarandstöðuna hafa gengið of langt í að hafna beiðni um að mál yrði tekið fyrir. Þá komu upp þau sjónarmið hjá hæstv. utanrrh. að hætta væri á að þessi afstaða stjórnarandstöðunnar yrði til þess að menn mundu auka beitingu bráðabirgðalaga. Menn kannast við þessa umræðu.

Í þeirri umræðu benti ég á hvort ekki væri hugsanlegt að búa sérstaklega um frestinn þegar Alþingi væri kallað saman utan venjulegs samkomutíma. Þá væri litið þannig á að þessi tveggja nátta frestur sem venjulega er talað um, yrði styttri og þar af leiðandi væri hægt að hugsa sér að þing kæmi saman, kannski í þrjá eða fjóra daga til að fjalla um tiltekið mál án þess að hafa það í för með sér að allt vaknaði upp á ný. Mér finnst að sú breyting varðandi meðferð mála á aukaþingum, sem sett væru að sumri til, sé brýn vegna þess að það er mikilvægt fyrir Alþingi að eyða þessari bráðabirgðalagahótun. Hún stenst ekki og verður að taka á henni með breytingum á þingsköpum.

Í öðru lagi segi ég, út af því sem hæstv. fjmrh. nefndi hér áðan, að mér er algerlega ljóst að hann semur ekki um eitt eða neitt í þessu máli frekar en ég. Hans vilji skiptir þó miklu máli og ég tel einboðið að hann verði tekinn á orðinu.