Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:33:33 (3924)

1998-02-17 14:33:33# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:33]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri gaman að vita hvort hæstv. dómsmrh. telur sig á þessum ritstjóraárum sínum hafa verið þátttakanda beint eða óbeint í samsærum þingmanna Alþfl. Og það að kenna þingmanni Alþfl. um það að starfsmaður lögreglustjóraembættisins í Reykjavík skuli koma fram með upplýsingar, sem er ástæðan fyrir þessari umræðu, er auðvitað út í hött. Það er ekki þingmanni Alþfl. að kenna að fjölmiðlar grafast fyrir um nýjar upplýsingar um málið sem verða til þess að óskað er efnislegrar umfjöllunar um málið hér, ekki í neinum dylgjustíl heldur beinlínis til þess að óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann skýri frá því hver hans viðbrögð séu við þeim nýju upplýsingum sem hafa komið fram.

Ég hef ekki tíma til þess í stuttu andsvari að fara yfir það mál. En mín niðurstaða er sú að fyrri helmingur ræðu hæstv. ráðherra hafi verið dylgjur, pólitískar dylgjur í garð pólitískra andstæðinga og að í seinni helmingi ræðu sinnar hafi hann ekki svarað nema einni spurningu af þeim sem til hans var beint. Hann sagði í seinni hluta ræðu sinnar að ástæðan fyrir því að fullnustumatsnefnd hefði breytt afstöðu sinni hefði verið nýjar upplýsingar. En hann var sérstaklega spurður að því hvaða nýju upplýsingar það voru sem gerðu það að verkum að fullnustumatsnefnd breytti fyrri niðurstöðu sinni og frá hverjum þær upplýsingar voru fengnar. Ég vil gjarnan óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu. Hún er mjög einföld. Hún er laus við allar dylgjur. Hún er efnisleg og hann hefur nógan tíma í andsvari til að svara þeim.