Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 14:46:44 (3927)

1998-02-17 14:46:44# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[14:46]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt í réttarríki að lögreglan og æðsti yfirmaður hennar, dómsmrh., njóti trúnaðar og trausts. Sem betur fer er óhætt að fullyrða að allar helstu grundvallarstofnanir réttarríkisins hafi notið þessa mikilvæga trúnaðartrausts almennings, þær hafi gætt laga og reglu þannig að fólk hafi almennt fundið það nauðsynlega öryggi sem þar á að finna. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar sú umræða stendur yfir sem hér er og hún er skilgreind og metin. Ég tek skýrt fram að hér eiga ekki að mínu mati að fara fram neinar nornaveiðar, engar galdrabrennur. Ég er ekki að tala þannig að ég vilji æruna af hæstv. dómsmrh., núv. eða fyrrv. Hér er enginn pólitískur skotgrafarhernaður í gangi af einu eða neinu tagi af minni hálfu.

Ég þekki sjálfur býsna vel hvernig það er að sitja á ráðherrastóli og verða fyrir ásökunum á ásakanir ofan, oft upplognum, eða mál eru tekin úr samhengi þar sem andstæðingar hér eða þar vilja það eitt að tilgangurinn helgi meðalið, nefnilega að koma höggum á sitjandi ráðherra algjörlega burt séð frá efnisatriðum máls. Ég vil því að það sé alveg kristalklárt af minni hálfu að innlegg mitt í umræðuna helgast ekki af neinum slíkum hvötum eða hugsanlegum pólitískum ávinningi heldur tel ég einfaldlega brýnt fyrir dómsmrh., lögregluna í Reykjavík, fyrir baráttuna gegn fíkniefnabölinu, fyrir réttarríkið í landinu og fyrir þingræðið og lýðræðið í samfélagi okkar, svo nefndir séu nokkrir grundvallarþættir sem tengjast umræðunni, að undan því verði ekki vikist úr því sem komið er að öll spil séu lögð á borðið, allar nauðsynlegar upplýsingar verði gerðar opinberar. Það er best fyrir alla aðila til skemmri og lengri tíma litið.

Mér finnst það því ekki rétt viðbrögð af hálfu hæstv. dómsmrh. og raunar að hluta til einnig hæstv. fyrrum dómsmrh., núv. utanrrh., að bregðast þannig við að þingflokki jafnaðarmanna gangi eitthvað annað til en að fá sem bestu og réttustu upplýsingar um þau mál sem eru til umræðu og hefur verið fjallað um í opinberri umræðu um nokkurra mánaða skeið.

Ég minni á að í gær fór fram utandagskrárumræða um óskylt mál sem var þó að því leytinu tengt yfirstandandi umræðu að það laut að embættisfærslu tveggja ráðherra. Þar var að heyra á viðkomandi ráðherrum að þeim þætti mikilvægt að frekari athugun færi fram á þeim fullyrðingum sem komu fram í því máli og voru talsmenn þess að óháðir aðilar og enn fremur nefndir þingsins könnuðu nánar ýmis þau atriði sem þar voru til umfjöllunar. Því má spyrja: Gilda einhver önnur lögmál um þau mál sem eru nú til umfjöllunar? Er ekki algjör nauðsyn á því í ljósi opinberrar umræðu síðustu daga, vikna og mánaða, að við þetta mál verði ekki skilið í hálfkveðnum vísum með upphrópunum og sleggjudómum, heldur að það verði einfaldlega rannsakað ofan í kjölinn þannig að efnisatriði, sönn og rétt, verði dregin fram í dagsljósið? Ég taldi raunar að það væri hæstv. dómsmrh. fagnaðarefni úr því sem komið væri að þessi mál fengju málefnalega og hlutlæga umræðu þannig að einhver botn fengist í ýmis þau atriði sem fram að þessu hefur verið fjallað óljóst um. Í þeim efnum er hreint ekki hægt að undanskilja hæstv. dómsmrh. sem hefur því miður valið þann kostinn, að vísu með vísan til trúnaðar, að ræða þessi mál við hið háa Alþingi m.a. í hálfkveðnum vísum og með opnu orðalagi sem hefur með réttu verið túlkað á misvísandi vegu.

Í þessu sambandi er einnig athyglisvert að nýjustu fréttir málsins, sem urðu til í kjölfar upplýsinga yfirlögfræðings lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, komu fram á þann veg að fyrrv. og núv. hæstv. dómsmálaráðherrar upplýstu hvor um hlutdeild annars. Fyrst nefndi núv. hæstv. dómsmrh. til sögunnar að það hefðu verið forverar hans sem hefðu gefið ádrátt um reynslulausn dæmdum manni til handa í stað upplýsinga. Fyrrum dómsmrh. Halldór Ásgrímsson brást þannig við upplýsingum Þorsteins Pálssonar, hæstv. núv. dómsmrh., að hann greindi frá samtali sem Þorsteinn hefði átt við sig þar sem hann aflaði upplýsinga um málið og staðfesti þannig að í ráðherratíð Þorsteins hefði verið tekið efnislega á málinu, þvert á það sem áður hafði verið gefið til kynna. Þar með er komið að einum mikilvægasta þætti málsins. Hver voru í raun og sanni efnisleg afskipti ráðherra dómsmála af reynslulausn þessa tiltekna fanga og hverjar voru heimildir til slíkra afskipta? Halldór Ásgrímsson, fyrrum hæstv. dómsmrh., hefur sagt eftirfarandi um það erindi lögreglunnar að veita þessum tiltekna manni reynslulausn á helmingi afplánunar í stað upplýsinga að hann hefði, og ég vitna orðrétt, með leyfi forseta, í Morgunblaðsviðtal í því sambandi: ,,Ég sagði sem svo að ef þetta samræmdist lögum og reglum teldi ég að þetta gæti komið til greina.`` Svo mörg voru þau orð.

Samræmist það lögum og reglum að dómsmálaráðherrar taki ákvarðanir um reynslulausn með þessum hætti? Í öðru lagi voru þá efnislegar ástæður til þess í þessu tilviki að heimila reynslulausn á helmingi afplánunar? Í 40. gr. refsilaga segir um þetta efni, með leyfi forseta:

,,Þegar fangi hefur tekið út 2/3 hluta refsitímans, en þó minnst 2 mánuði, getur dómsmálaráðherra eða annað stjórnvald, sem hann felur úrlausn slíks máls, ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu.``

Síðan segir: ,,Reynslulausn má þó veita, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans.``

Í reglugerð nr. 569, um upphaf og lok fangavistar, segir að fullnustumatsnefnd og Fangelsismálastofnun gegni lykilhlutverkum varðandi mat og ákvarðanir um reynslulausn. Þar kemur fram það framsal á valdi sem kveðið er á um í áðurnefndri 40. gr. refsilaga, þetta ,,annað dómsvald`` sem dómsmálaráðherra hefur falið úrlausn slíks máls.

Í þessu ljósi má því vel vera að fyrrum hæstv. dómsmrh. hafi við nánari athugun máls komist að þeirri niðurstöðu, í kjölfar erindis lögreglunnar um reynslulausnina, að hæpið væri að afskipti ráðherra samræmdust lögum og reglum þannig að það vilyrði sem núv. hæstv. dómsmrh. hefur orðað sem svo, en fyrrv. hæstv. dómsmrh. hefur orðað þannig að hann hafi ekki útilokað að koma að málinu, hafi af þessum ástæðum ekki komið til framkvæmda í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar né heldur í ráðherratíð Óla Þ. Guðbjartssonar.

Ekki var að heyra á hæstv. fyrrv. dómsmrh. að hann tæki af skarið í þeim efnum hvort að hann hefði komist að skýrri og klárri niðurstöðu um það hvort lög stæðu til þess að dómsmrh. gæti komið að málinu beint eða óbeint með þeim aðdraganda sem um ræðir. Væri fróðlegt að fá svar við því.

Hins vegar er athyglisvert í þessu sambandi að það er aðeins núv. hæstv. dómsmrh. sem hefur rætt um að um vilyrði hafi verið að ræða af hálfu fyrrv. hæstv. dómsmrh. og að hann hafi í ráðherratíð sinni fallist á að reynslulausn kæmi til álita. Við skulum orða það þannig að þarna nálgast ráðherrarnir tveir hæstv. málið með mjög ólíkum hætti og þarna er að finna athyglisvert misræmi. Það kann að vera ekki stórt í fljótu bragði en engu að síður athyglisvert og þess vegna vek ég athygli á því.

Raunar hefur hæstv. núv. dómsmrh. einnig sagt um erindisrekstur af þessum toga gagnvart ráðherra og, ítrekað það í þessum umræðum, í Morgunblaðsviðtali á laugardag sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Mér fannst hins vegar mjög óeðlilegt að lögreglan setti pólitísk stjórnvöld í þá stöðu að þurfa að taka afstöðu til mála eins og þessara.`` Hann orðaði það í umræðunni að hann hefði verið settur upp við vegg. Ber að skilja hæstv. dómsmrh., að það hafi verið forveri hans í embætti sem hafi sett hann upp við þennan vegg og vilyrðið meint af þeim toga? Nauðsynlegt er að fá það upplýst. Einnig hafa verið nefndar nýjar upplýsingar sem fullnustumatsnefnd hafi tekið mið af. Voru þessar nýju upplýsingar meint vilyrði forvera hæstv. núv. dómsmrh. eða voru þessar nýju upplýsingar um efnisatriði máls, upplýsingar í stað reynslulausnar? Úr því sem komið er er mikilvægt og nauðsynlegt að fá þetta algjörlega skýrt og ljóst fram. Ég tek skýrt fram, virðulegi forseti, að mér finnst fyllilega koma til greina að lögreglan hafi heimildir til svokallaðra óhefðbundinna rannsóknaraðferða. Það er að sönnu hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni að þjóðin á í harðskeyttri baráttu við það böl sem fíkniefnin hafa í för með sér og mikilvægt að veita lögreglunni þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að stemma stigu við þeirri ógn. Það verður þó að gera innan ákveðins ramma og samkvæmt vel skilgreindum heimildum frá réttum aðilum. Um slíkar reglur og heimildir hafa okkar ötulu og duglegu lögreglumenn beðið hin síðari ár en ekki fengið. Hina pólitísku ábyrgð á því er að finna í dómsmrn. Enn liggja slíkar reglur ekki fyrir. Enn þá er verið að vinna að gerð þeirra. Það skapar lögreglunni umtalsverða erfiðleika í störfum sínum og enn fremur sannarlega hinu pólitíska valdi. Hæstv. dómsmrh. segir í Morgunblaðsviðtali sl. laugardag eftir að hafa lýst því hversu óeðlilegt hann teldi að lögreglan setti pólitísk stjórnvöld í þá stöðu að taka afstöðu til mála á borði margnefndrar reynslulausnar, með leyfi forseta:

,,Þess vegna gaf ég um það fyrirmæli þegar þetta gamla mál lá fyrir að lögreglan bæri ekki fleiri mál af þessu tagi upp við ráðuneytið og það hefur ekki verið gert. Sú viðmiðunarregla var strax sett eftir að málið til minnar vitundar.``

Með öðrum orðum taldi dómsmrh. málið á mörkum þess eðlilega eða raunar óeðlilegt, eins og hann orðaði það, og bannaði að fleiri slík erindi bærust inn á borð hans. Þarf frekari vitna við um hið gráa svæði sem við erum að ræða en einmitt sjálfan ráðherrann?

Þetta voru að mörgu leyti skiljanleg viðbrögð af hálfu ráðherra en það vantaði hins vegar hið mikilvæga í málinu, að koma böndum, festu og reglu á hinar óhefðbundnu rannsóknaraðferðir og stöðu þeirra í stjórnkerfinu. Það hefur brugðist. Þessar reglur hefur vantað.

Það er augljóst að samskipti lögreglustjóraembættis og dómsmrn. þarf að færa í betra horf og ekki seinna en nú. Ég hef fulla samúð með núv. hæstv. dómsmrh. í þessari orrahríð. Mér dettur ekki í hug annað en þeim báðum hafi gengið gott eitt til í stjórnsýslu sinni.

[15:00]

Það breytir hins vegar ekki staðreyndum máls og þeim veruleika sem við blasir. Við þurfum svo sannarlega með öllum ráðum að treysta réttarríki okkar og trúnaðartraust milli lögreglu. Þar undanskil ég ekki yfirvald hennar, dómsmrn. og svo aftur þjóðarinnar. Ég ber traust til lögreglunnar. Ég þekki þar raunar allvel til eftir að hafa starfað sem lögreglumaður á yngri árum mínum, á áttunda áratugnum, þar á meðal um skamma hríð í fíkniefnadeild lögreglunnar og veit því af eigin reynslu að þar er að finna trausta og dugmikla einstaklinga sem vinna oft við erfiðar aðstæður og bág kjör. Ég hef því ekki og mun ekki gagnrýna lögregluna í þessari umræðu. Ég tel hins vegar óumflýjanlegt að svarað verði skýrt og afdráttarlaust um samskipti lögreglu og dómsmrh. fyrr og nú og leitað verði leiða til að koma þeim í viðunandi horf. Þar þurfum við skýrar reglur til stuðnings lögreglu og ekki síður til stuðnings stjórnmálamönnum.

Við erum að ræða alvörumál, virðulegi forseti. Það þarf að gera af hófstillingu eins og málshefjandi, Lúðvík Bergvinsson, gerði í upphafi umræðunnar og ég vona að ég hafi gert í ræðu minni. Ég sé ekki að það þjóni neinum tilgangi að upphefja pólitískar skylmingar og sumpart útúrsnúninga sem mátti að sumu leyti finna í svörum hæstv. ráðherra og ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það. Slíkur málflutningur, þótt skiljanlegur sé út frá mannlegu sjónarmiði, er tæpast til þess fallinn að styrkja lögregluna í baráttu við fíkniefnabölið sem er eitt aðalatriði í þeirri mikilvægu umræðu sem fram fer.