Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 16:31:35 (3940)

1998-02-17 16:31:35# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[16:31]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu er í senn stóralvarlegt og vandmeðfarið bæði vegna þess að um mjög alvarlegan og viðkvæman málaflokk er að ræða og ekki síður hins að upplýsingar hafa komið fram sem grafa undan trausti almennings á lögregluyfirvöldum.

Miðpunktur umræðunnar í dag hefur verið reynslulausn Franklíns Steiners eftir helming dæmds refsitíma árið 1990 til 1991 sem orkar mjög tvímælis. Bæði það hvernig að endurupptöku erindisins var staðið eftir að því hafði verið hafnað af einum dómsmrh. og að reynslulausn skuli yfir höfuð hafa verið veitt í þessu máli sem á sér fáar ef nokkrar hliðstæður að mér skilst. Hér er um alvarlegt mál að ræða sem krefst nánari athugunar þótt ekki væri nema til að róa almenning og lagfæra það sem virðist óljóst bæði í skipulagi lögreglunnar og varðandi vinnureglur fyrir óhefðbundnar rannsóknaraðferðir hennar.

Því hefur allshn. samþykkt á fundi sínum í morgun að taka málið upp til athugunar á grundvelli 26. gr. þingskapa eins og hér hefur verið ítrekað og rætt allítarlega. Ég vil því bíða með stór orð þar til ljóst er hvort lög og reglur hafa verið brotnar í meðferð málsins. Mér finnast lýsingar hæstv. núv. og fyrrv. dómsmrh. skýrar á sínum þætti í því að umrædd reynslulausn var veitt. Þeir viðurkenna að hafa samþykkt fyrir sitt leyti að heimila slíka lausn þar sem það átti að geta skipt afar miklu máli um uppljóstranir í mikilvægum málum. Formlega var þó um ákvörðun fullnustumatsnefndar að ræða.

Það er rétt sem hefur komið fram að hv. allshn. fékk Jónatan Þórmundsson og fleiri á sinn fund í síðustu viku en nefndin lítur svo á að þær upplýsingar sem þar komu fram hafi verið trúnaðarmál. Nú hefur hæstv. dómsmrh. hins vegar vitnað í þennan framburð óbeint í gegnum minnisblað og einn hv. þm. Sjálfstfl. í allshn. hefur staðfest að þau ummæli voru rétt eftir höfð. Þau ummæli sem minnst var á var allt það sem kom ráðherranum vel í málinu. Það er staðfest opinberlega en ekki allt það sem kom fram án þess að ég ætli að vera með nokkrar dylgjur. T.d. hefur ekki komið alveg skýrt fram hvers vegna viðkomandi, Jónatan Þórmundsson, hugleiddi að segja af sér sem formaður fullnustumatsnefndar eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Það verður fróðlegt að mínu mati að fylgjast með framvindu þeirrar athugunar sem allshn. hefur samþykkt að fara í þótt ekki væri nema til að skýra réttarstöðu þingnefndarinnar sem lögfræðingar hafa bent á að sé óljós í athugun af þessu tagi. Það er von mín að sú athugun og umræður um þetta mál leiði til betri vinnubragða og bættra starfsreglna innan lögreglunnar og að réttarstaða þingnefnda til að fara ofan í mál í trúnaði sé styrkt.

Það var furðulegt að heyra hæstv. ráðherra og þingmenn gefa áðan til kynna að þingnefndir séu ekki lokaðar eða bundnar trúnaði. Slíkt er stundum reglan, t.d. í utanrmn. og ákvæði eru um trúnað í þingnefndum í reglum um þingstörf, þ.e. það er hægt að ákveða að mál séu tekin fyrir í trúnaði og það hefur hv. allshn. gert. Það var nefnt sem dæmi um það hve þingnefndir væru opnar að þangað kæmu oft inn fjölmiðlar. Það er vissulega rétt, stundum koma þar inn ljósmyndarar en það er ávallt gert með heimild nefndarmanna.

Að mínu mati er lágmarkskrafa, virðulegi forseti, að þingmönnum sé sýndur trúnaður og að lokuð þingnefnd fái meiri upplýsingar en fjölmiðlar fá. Réttur þingnefnda í athugunum sem þeirri sem nú stendur fyrir dyrum er ekki nógu skýr og úr því verður að bæta. Nokkrar umræður hafa átt sér stað í nefndinni eins og hefur reyndar komið fram hvort slík lokuð nefnd fái að skoða umrædda skýrslu í trúnaði eða ekki annaðhvort í heild eða afmarkaða hluta hennar. Ég lít svo á að samkomulag hafi náðst um málsmeðferð sem ég tel viðunandi og fagna því. Það er vonandi ekki tilgangur neins að fara á pólitískar nornaveiðar í þessu máli. Slíkt er svo sannarlega fyrir neðan virðingu hv. allshn.

Fíkniefnavandamálið er eitt af stóru vandamálum þessa samfélags. Það er svo sannarlega rétt þótt ég vilji jafnframt vara við því að öll önnur mál sem snerta ungt fólk falli í skuggann fyrir þeirri umræðu. Allt sem getur styrkt baráttuna gegn þeim vágesti sem fíkniefnin eru er til góðs. Það tel ég fyrirhugaða athugun allshn. vera svo og þær aðgerðir sem hæstv. dómsmrh. hefur þegar beitt sér fyrir um úttekt á störfum lögreglunnar og vinnu við setningu reglna um óhefðbundnar starfsaðferðir lögreglunnar. Vonandi verður þetta mál einnig til þess að eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu styrkist, lýðræðinu sjálfu til framdráttar.