Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 16:54:42 (3942)

1998-02-17 16:54:42# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Umræðan í dag er endapunktur á margra missira umræðu. Fram hafa komið miklar upplýsingar, mikilli vitneskju hefur verið dreift um þjóðfélagið en það stendur samt eftir að upplýst hefur verið af sérstökum ríkissaksóknara að ekkert saknæmt var gert af hálfu yfirvalda. Það var ýmislegt aðfinnsluvert hjá lögreglunni á þessum tíma en það hefur líka verið upplýst að þar hafi farið fram endurskipulagning til þess að bæta það áður en þessi umræða hófst.

Við borgararnir vitum miklu meira um lögregluna og starfsaðferðir hennar í dag en við vissum áður en umræðan hófst. En glæpamennirnir vita líka miklu meira en þeir vissu áður. Munum við borgararnir sofa betur vegna þeirrar vitneskju? Það hefur verið staðfest að öll þessi umræða hefur skaðað starfsemi fíkniefnalögreglunnar stórkostlega. Það er þá kannski ekki nema von að maður spyrji sjálfan sig: Var öll þessi umræða þess virði? Það er kannski rétt að hv. málshefjandi, og kannski sérstaklega hv. allshn. sem fjallað hefur talsvert um þessi mál, velti þessu fyrir sér. Var hin mikla umræða, þessi mikla uppljóstrun þess virði að hún ætti sér stað? Sofum við borgararnir betur eða höfum við meiri áhyggjur en áður?