Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 16:57:12 (3943)

1998-02-17 16:57:12# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[16:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mátti eiga von á þessari ómerkilegu ræðu dómsmrh. í dag og ráðherrann veit til hvers ég er að vísa með þessum orðum. Ég viðurkenni þó að ég var henni óviðbúin. Hann skilur líka hvað felst í orðum mínum. Lærir svo lengi sem lifir. Inngangi er lokið.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson flutti mjög góða ræðu og opnaði þessa utandagskrárumræðu en því var öðruvísi farið með viðmælandann. Hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson ákvað að árás væri besta vörnin, árás á Alþfl., árás á þingflokk jafnaðarmanna, árás á ritstjóra sem væru þingmenn eða varaþingmenn Alþfl. Og ræða hæstv. ráðherra féll undir hið fornkveðna: Nú skal drepa sendiboða válegra tíðinda.

Virðulegi forseti. Umræða sem beint er til ráðherra er ekki beint til persónu. Gagnrýni og spurningar beinast að embætti. Ráðherrar mega ekki samsama sig embættinu þó þeir sitji árum saman á ráðherrastóli. Það er alvarlegt þegar það gerist og það er óþægilegt að upplifa það.

Ýmislegt vekur athygli í undarlegri ræðu dómsmrh. sem valdi að svara fáu af því sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson beindi til hans. Eitt af því er að vitnisburður afbrotamanna er í lagi þegar lögreglan er í sambandi við þá en ef afbrotamaður upplýsir ritstjóra, þá er eitthvað dularfullt við það, a.m.k. ef ritstjóri tímarits er varaþm. Alþfl. Þetta mátti skilja á málflutningi dómsmrh. og ég harma slíka umfjöllun.

Reyndar er það svo, virðulegi forseti, að ræður stjórnarliða í dag hafa fylgt foringjanum. Hver af öðrum hafa þeir talað um aðför að lögreglunni í þingsal og það er alveg rakalaus málflutningur. Við skulum fara örlítið yfir ferli umræðunnar á Alþingi.

17. mars í fyrra fór fram umræða utan dagskrár og spurt var hvort ráðuneytið hafi veitt heimildir til viðskipta, annaðhvort fjárgreiðslur eða aðrar fyrirgreiðslur fyrir uppljóstranir eða ábendingar, hvort settar verði reglur um slík viðskipti, hvort ráðherra muni beita sér fyrir að opinber rannsókn fari fram á alvarlegum fullyrðingum sem settar voru fram um samninga sem fíkniefnalögregla átti að hafa gert, að meintur fíkniefnasali starfaði í skjóli hennar.

[17:00]

Dómsmrh. brást við og fékk viðurkenningu okkar þingmanna fyrir það. Tveimur dögum seinna óskaði hann eftir því við ríkissaksóknara að fram færi opinber rannsókn á samskiptum lögreglu og Franklíns Steiners. Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, settur rannsóknarlögreglustjóri, var fenginn til að fara með rannsókn málsins. Hann skilaði skýrslu 11. júní.

Ég lít svo á að það að Alþingi sinnti eftirlitshlutverki sínu hafi orðið þess valdandi að þessi rannsókn fór fram. Tímasetningarnar bera þess merki. Rannsóknarlögreglustjórinn skilaði skýrslu 11. júní. Ákveðið var að skýrslan yrði ekki birt almenningi og hún yrði ekki kynnt Alþingi. Seinna kom í ljós, virðulegi forseti, að í henni kemur fram hörð gagnrýni á skipulag og jafnvel starfsemi lögreglunnar í Reykjavík. Ég vek sérstaka athygli á því vegna þess að hver af öðrum hafa stjórnarliðar borið þingmenn stjórnarandstöðunnar þeim sökum að veikja lögregluna í Reykjavík.

Reyndar má nefna það, virðulegi forseti, að ræður ráðherranna hér í dag voru ólíkar. Það voru ræður hæstv. dómsmrh. Þorsteins Pálssonar og hæstv. utanrrh., fyrrv. dómsmrh., Halldórs Ásgrímssonar, þó sá síðarnefndi ætti aðild að þeirri reynslulausn sem talsvert hefur verið til umræðu. Sá síðarnefndi hvatti til þess að staðið væri við bakið á lögreglunni, hún yrði ekki veikt í umræðunni. Og hverjir veikja lögregluna? Svari sá sem hlustað hefur á og tekið þátt í umræðum á Alþingi í dag.

Virðulegi forseti. Við höfum viljað styrkja stöðu fíkniefnalögreglunnar. Við höfum margoft flutt tillögur um að aðbúnaður hennar yrði styrktur og starfsumhverfi hennar bætt, bæði hvað varðar starfsaðstöðu og fjárveitingar. Það veit ráðherrann. Við höfum boðið ríkisstjórninni samstarf í baráttunni við fíkniefnavandann. Ég hef oft staðið í þessum ræðustól og kallað eftir því samstarfi, bæði að nefndir gætu farið í slíka vinnu og að við gætum tekið þátt í þeim góðu áformum sem ríkisstjórnin hefur sett fram um fíkniefnalaust Ísland. Því hefur ekki verið ansað.

Ég minni einnig á að við utandagskrárumræðuna 2. febr. lagði stjórnarandstaðan fram þá tillögu í umræðunni að skýrslan umdeilda færi til umfjöllunar allshn. sem trúnaðarmál svo hún yrði ekki á allra vörum. Þar með hefði þessari umfjöllun lokið enda hefði nefndin getað tekið málið að sér, séð um það og fjallað um það sem trúnaðarmál. Það hefur tekið hálfan mánuð að velta málinu fyrir sér. Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það hefði verið farsælla að nefndin hefði umsvifalaust fengið málið til meðferðar.

Virðulegi forseti. Í október þegar þing kom saman óskaði þingflokkur jafnaðarmanna eftir því að dómsmrh. flytti Alþingi sjálfstæða skýrslu um rannsóknina og önnur atriði svo sem afskipti dómsmrh. af umræddri reynslulausn. Þeirri skýrslu var dreift hér á síðasta þingdegi fyrir jól. Hún var síðan tekin til umræðu núna 2. febr. eins og fram komið. Í þeirri skýrslu voru glefsur úr skýrslu Atla Gíslasonar. Þar kom m.a. fram að frumgögn rannsóknargagna hefðu horfið og annað sem fengið hefur athygli fjölmiðla. Í byrjun febrúar í umræðum um skýrsluna, lýstum við því yfir hversu erfitt það væri fyrir Alþingi að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki sínu. Áhersla var lögð á að þingnefnd þyrfti að hafa tækifæri til að fara ofan í viðkvæm mál og þar sem við hefðum enga rannsóknarnefnd hjá okkar þingi þá yrðum við að fela fagnefnd slíkt.

Fyrir viku var óskað eftir stjórnsýsluendurskoðun á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, bæði af hálfu þingflokks jafnaðarmanna og dómsmrh., í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun sem naut þá a.m.k. enn þá nokkurrar virðingar með ráðherrum. Fyrir helgi var svo hluti skýrslu Atla Gíslasonar birtur og þar komu fram ýmsar þær upplýsingar sem hafa verið í umræðunni síðan.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um atburðarásina 1991 eins og hún birtist mér í þeim upplýsingum sem fram hafa komið. Þáv. hæstv. dómsmrh. Halldór Ásgrímsson er beðinn um afskipti af reynslulausn svo lögreglan geti fengið umtalsverðar upplýsingar til að koma böndum á fleiri glæpamenn. Hæstv. núv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson fær síðar upplýsingar um vilyrði hæstv. þáv. dómsmrh. Halldórs Ásgrímssonar. Hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson sendi málið aftur til fullnustumatsnefndar, nefndin fellst samdægurs á reynslulausn, Fangelsismálastofnun veitir reynslulausn. Hæstv. dómsmrh. Þorsteini Pálssyni finnst óeðlilegt að lögreglan setji pólitísk stjórnvöld í þá stöðu að taka afstöðu til svona mála. Hann frábiður ráðuneyti sínu svona málaleitan á ný. Samt, tæpum sjö árum síðar, er enn ekki búið að setja reglur um þessi mál. Þau eru aftur á móti komin í hámæli í fjölmiðlum og hér á þingi.

Virðulegi forseti. Ég hef talið óumdeilt að svokallaðar óhefðbundnar rannsóknir væru fyllilega lögmætar. Það hefur m.a. verið staðfest af Hæstarétti, 1993, þegar notuð var tálbeita í stóra fíkniefnamálinu svokallaða. Hins vegar truflar það mig og eflaust fleiri sem fram kom í svari hæstv. dómsmrh. við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um reynslulausn Franklíns Steiners. Þar sagði sagði hæstv. dómsmrh. orðrétt:

,,Í þessu efni er rétt að taka fram að óheimilt er með öllu og refsivert af hálfu lögreglu að hylma yfir grun um refsiverða háttsemi, semja um að menn geti sloppið við viðurlög eða ákæru eða á nokkurn annan hátt að láta grun um refsiverða háttsemi afskiptalausa. Slíkt væri hvort tveggja í senn brot í opinberu starfi sem og hlutdeild í viðkomandi afbroti. Af hálfu lögreglustjórans í Reykjavík hefur því alfarið verið hafnað að slíkt hafi gerst eða tíðkast hjá lögreglunni í Reykjavík.``

Ráðherrann bætir því við að ekki sé ástæða til að vefengja þá fullyrðingu og óþolandi sé að sitja undir slíkum ásökunum. Ég minni á að þegar Fangelsismálastofnun ríkisins synjaði um reynslulausn, kærði viðkomandi ákvörðunina til dómsmrn. Að mínu mati hefði verið eðlilegra að dómsmrn. sem stjórnvald á æðra stjórnsýslustigi hefði fjallað efnislega um kæruna og tekið ákvörðun. Dómsmrn. kaus hins vegar að fara aðra leið, þ.e. að senda bréf til Fangelsismálastofnunar, þann 28. júní 1991, þar sem þess er farið á leit að stofnunin endurupptaki málið.

Í Ríkisútvarpinu, þann 12. febr. sl., kom fram að vorið 1991 hefðu lögfræðingur og yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík gengið á fund Þorsteins Pálssonar dómsmrh. og beðið um reynslulausn fyrir Franklín Steiner. Þeir töldu hann geta veitt mikilvægar upplýsingar. Síðar hefur dómsmrh. staðfest þetta. Í viðtali í Morgunblaðinu greinir hæstv. dómsmrh. frá því að hann sem yfirmaður dómsmrn. hafi tekið ákvörðun um að senda málið aftur til Fangelsismálastofnunar í stað þess að fjalla efnislega um kæruna eins og eðlilegt hefði verið. Einnig kemur fram að ákvörðunin um að senda málið aftur til endurupptöku hafi byggst á nýjum gögnum, þ.e. væntanlega einhvers konar samkomulagi lögreglunnar og Franklíns Steiners.

Því verður ekki á móti mælt, virðulegi forseti, að hér var um nýjar upplýsingar að ræða. Í ljósi þess er eðlilegt að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh., nú þegar vitað er að lögreglan með vitneskju dómsmrh. gerði samkomulag við brotamann um að hann slyppi við helming viðurlaga, hvort hann sé enn þá þeirrar skoðunar að slíkt framferði sé hvort tveggja, brot í opinberu starfi sem og hlutdeild í viðkomandi afbroti.

Virðulegi forseti. Við skulum staldra við baráttuna gegn fíkniefnaglæpum. Hefur reynsla liðinna ára, atburðir á árinu 1991, tryggt betra og árangursríkara starfsumhverfi fíkniefnalögreglu? Bera upplýsingarnar um stöðu fíkniefnalögreglunnar ekki einmitt þess merki að þeim er ætlað ofurmannlegt verkefni án þess að starfsumhverfi þeirra sé tryggt með lagaramma, reglum og fjárveitingum? Hefur ekki árum saman verið kallað eftir því, m.a. í þessum sal, að starfsaðstaða fíkniefnalögreglu væri bætt? Ég minni enn á tilboð okkar um samstarf.

Virðulegi forseti. Ég hef skoðun á því hvers vegna þessir veikleikar hafi komið í ljós í dómsmálunum. Skoðun mín er sú að árum saman hafi dómsmrn. verið skúffuráðuneyti. Á meðan þetta er eitt af virtustu ráðuneytum í nágrannalöndunum þá hefur það verið þannig um árabil og jafnvel áratugi að öflugur og duglegur ráðherra hefur haft þetta í rassvasanum. Mér er kunnugt um að hæstv. dómsmrh. hefur flutt mörg góð mál inn á þing. Ég veit einnig að sá hinn sami ráðherra er ekki sá sem fær mál á dagskrá með hávaða og látum. Ég vek athygli á því að sami ráðherra hefur gjarnan fengið flest mál í gegnum þingið. Margir mættu huga að því hvort það gæti átt rætur í þeirri prúðmennsku sem fram að þessum degi hefur einkennt þennan hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og ég vil að lokum segja þetta að gefnu tilefni: Ég er afskaplega stolt af mínum þingflokki og finnst að yfir störfum þingflokks jafnaðarmanna á Alþingi Íslendinga sé mikil reisn.