Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:01:18 (3951)

1998-02-17 18:01:18# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag. Ég held að hún hafi að mestu verið gagnleg. Ég met það svo að umræðan í dag hafi að ýmsu leyti færst inn á nýjar brautir og verið með talsvert öðru sniði en undanfarið ár. Ég tel að þannig hafi átt sér stað jákvæð þróun í þessari umræðu.

Hér hafa farið fram nokkrar umræður á milli hv. þm. um þingsköp Alþingis og með hvaða hætti nefndir þingsins geti tekið mál eins og þessi til umfjöllunar. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við þann hluta umræðnanna hér í lokaorðum mínum. Þær ræður skýra sig alveg sjálfar.

Í lokin ætla ég að gera nokkra grein fyrir atriðum þar sem ég tel að gætt hafi nokkurs misskilnings og öll þau atriði komu fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf. Í fyrsta lagi var talið að ég hafi verið með aðdróttanir í garð þingmanna Alþfl. og jafnaðarmanna. Það sem ég var að gera var að vekja athygli á því hvernig þessi umræða hófst.

Ég vakti athygli á nokkrum staðreyndum sem eru í skýrslu ríkissaksóknara um þær ásakanir sem bornar hafa verið á lögregluna. Í umræðunni undanfarið ár hefur oft verið látið að því liggja að jafnvel dómsmrh. hafi verið flæktur í vafasamar ef ekki ólöglegar athafnir lögreglunnar. Þessar ásakanir byggjast, samkvæmt skýrslu ríkissaksóknara, á upplýsingum sem varaþingmaður Alþfl. á Suðurl. fékk frá ýmsum ónafngreindum aðilum í fíkniefnaheiminum. Í skýrslu ríkissaksóknara segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Höfundur greinarinnar í Mannlífi var kvaddur til skýrslugjafar sem vitni. Upplýsingar sínar kvað hann byggðar á mjög miklum fjölda trúnaðarsamtala við fólk, m.a. fólk sem stundar viðskipti með fíkniefni, menn úr fjölskyldu-, vina- og kunningjahópi Franklíns Kristins Steiners og við menn sem setið hafi með honum í fangelsi. Hann benti á og nafngreindi mann sem hann kvað lykilmann sinn í undirheiminum, sem hafi sína einkarannsókn á umsvifum Franklíns. Þá kvað hann annan lykilheimildarmann sinn úr því sem hann kysi að kalla ,,kerfinu``. Hann kvað þetta vera embættismann sem hann vissi að gjörþekkti þessi mál, og hafi sá talið að menn væru ,,komnir langt út fyrir það sem lög leyfa``. Hann kvaðst ekki undir nokkrum kringum stæðum gefa upp nafn þessa manns vegna stöðu hans í kerfinu.

Hinn nafngreindi lykilmaður, ásamt gæslufanga í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, sem hlotið hefur dóma fyrir fíkniefnaviðskipti, voru yfirheyrðir. Framburðir þeirra virðast gefa til kynna að undirrótin að andúð þeirra á Franklín Steiner sé reiptog milli aðila um fíkniefnamarkaðinn og að þeir telji Franklín hafa útvegað fíkniefnalögreglunni ,,fórnarlömb`` eins og það er orðað.``

Ég er ekki að gera upp neinar sakir. Ég er aðeins að vitna í staðreyndir sem koma fram í virtri skýrslu ríkissaksóknara.

Síðan vakti ég athygli á því í ræðu minni að ríkissaksóknari hefði, að undangenginni opinberri réttarrannsókn undir stjórn setts rannsóknarlögreglustjóra, komist að þeirri niðurstöðu að engar af þeim ásökunum sem bornar voru á lögregluna gæfu tilefni til ákæru vegna brota á hegningarlögum eða vegna brota í starfi. Niðurstöður ríkissaksóknara eru um hvert einstakt atriði sem fram kemur í rannsókn setts rannsóknarlögreglustjóra, skýrðar og rökstuddar.

Ég sagði í ræðu minni að eftir að ríkissaksóknari hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær sakir sem bornar hafa verið á lögregluna ættu ekki við rök að styðjast og ekki gæfist tilefni til að hefjast handa gegn þeim lögreglumönnum sem höfðu réttarstöðu grunaðra manna í rannsókninni, þá væri hvorki tilefni né rök til þess að halda áfram að kyrja þann söng um áburð sem hér hefur verið til staðar. Þá er frekar ástæða til þess að segja: Hér hefur hinn óháði embættismaður komist að niðurstöðu í þessu efni. Við styðjum þá lögreglumenn sem hér eiga hlut að máli til áframhaldandi starfa. Ríkissaksóknari hefur ekki fundið neitt saknæmt í athöfnum þeirra og um það snýst málið. Ég hef lýst skýrri afstöðu minni og hvaða niðurstöðu ég treysti í þessu efni.

Ég tók það hins vegar mjög skýrt fram í ræðu minni að ég taldi fullkomlega eðlilegt að efna til þeirrar umfangsmiklu rannsóknar sem fram fór vegna þeirra ásakana sem fram komu frá ónefndum sakamönnum og einum nafngreindum. Ég taldi mjög eðlilegt af hálfu hv. 5. þm. Suðurl. að bera slíka ósk fram í umræðum hér á Alþingi fyrir ári síðan. Ég taldi rétt að óska sjálfur eftir því að slík rannsókn færi fram. Ég hef aldrei sagt að það eigi að hafa að engu slík ummæli, jafnvel þó að þau hafi komið frá afbrotamönnum. Þvert á móti bera viðbrögð mín vott um að ég vildi taka þau alvarlega og lét því efna til þessarar viðamiklu rannsóknar. Þeim orðum er hvergi hægt að finna stað að ég hafi talið það vera óeðlilegt, enda bera athafnir mínar í því vitni um annað.

Þá hélt hv. 4. þm. Vestf. því fram að ég hefði í ræðu minni talið óeðlilegt að fjölmiðlar fjölluðu um þetta mál. Ég lýsti því aldrei yfir að ég teldi óeðlilegt að fjölmiðlar fjölluðu um þetta mál. Það er hvergi hægt að finna þeirri fullyrðingu stað í ræðu minni.

Hann sagði einnig að ég hefði furðað mig á því að málið hafi verið tekið upp á Alþingi. Ég undraðist það aldrei. Ég hef alltaf talið það í meira lagi sjálfsagt. Ég furðaði mig á því hvernig þessa utandagskrárumræðu bar að en ekki að málið væri tekið til umræðu. Þeim orðum er ekki heldur hægt að finna stað.

Þá vék hv. 4. þm. Vestf., og reyndar nokkrir aðrir þingmenn einnig, að orðum mínum frá því í fyrra. Þar sagði ég að það væri óheimilt að semja um refsingu og semja við sakamenn að þeir yrðu ekki dregnir til refsingar og þessi ummæli standa að sjálfsögðu. Hvorki lögregla né ráðherra geta gert slíka samninga að þeir hafi áhrif á þá refsingu sem menn hafa unnið til með afbrotum. Einungis dómstólar geta tekið ákvarðanir um refsingu. Þeir hafa heimild til þess að meta það til refsilækkunar ef menn hafa verið samvinnuþýðir og hjálpað til við upplausn mála. Ráðherra getur ekki beitt dómstóla neinum þrýstingi og haft með því áhrif á dóma. Lögreglumönnum er að sjálfsögðu með öllu óheimilt að stinga málum undir stól og koma í veg fyrir að þau gangi til dómstóla, enda hefur ekkert mál af því tagi komið fram.

Þegar reynslulausn er veitt er um allt annað að ræða. Langflestir þeirra sem dæmdir eru, fá reynslulausn. Það er allt annar hlutur en ákvörðun um refsingu. Ég tel til að mynda að ráðherra gæti ekki veitt náðun með tilliti til þess að sá dæmdi hefði veitt upplýsingar. Ég tel að það sé ekki hægt. Þarna hafa menn fyrir einhvern misskilning ruglað saman tveimur ólíkum málum, ákvörðun um refsingar og hins vegar ákvörðun um reynslulausn.

Í upphafsræðu minni svaraði ég öllum þeim fyrirspurnum sem til mín var beint af málshefjanda. Ég hygg að þegar hv. þingmenn lesa þá ræðu yfir muni þeir komast að raun um að þar er öllum spurningum svarað. Spurningunum var svarað bæði í ræðu minni og eins þeirri bókun sem ég hafði eftir prófessor Jónatan Þórmundssyni. Ég ætla því ekki að endurtaka öll þau svör hér og nú.

Ein spurning hefur þó oftar verið borin fram en aðrar, þó að ég hafi svarað henni í upphafi. Hún lýtur að því hvaða lagaheimildir hafa verið til þess að veita reynslulausn. Ég svaraði því skilmerkilega með tilvitnun í prófessor Jónatan Þórmundsson sem vakti athygli á því að í hegningarlögum er ákvæði þess efnis að það sé heimilt, standi sérstaklega á, að veita reynslulausn að hálfnaðri afplánun. Ég get jafnframt endurtekið það hér að í 40. gr. hegningarlaganna segir svo:

,,Reynslulausn má þó veita ef sérstaklega stendur á þegar liðinn er helmingur refsitímans.``

Þessari ábendingu kom prófessor Jónatan Þórmundsson til nefndarmanna í hv. allshn. Allir þeir sem þar sátu áttu að hafa vitneskju um það eftir heimsókn hans þangað. Frá þessu greindi ég í upphafsræðu minni og geri það enn einu sinni til áréttingar vegna þess að þessi spurning hefur verið endurtekin nokkrum sinnum.

Ég held þá, herra forseti, að ég hafi vikið að þeim atriðum sem ástæða er til í lok þessarar umræðu. Að öðru leyti vil ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég tel hana að mestu hafa verið til gagns.