Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:14:32 (3952)

1998-02-17 18:14:32# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:14]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur væntanlega slæma samvisku. Hann ræðst með fúkyrðum og dylgjum á þingmenn jafnaðarmanna en svarar sáralitlu af þeim efnismiklu spurningum sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur beint til hans.

[18:15]

Hæstv. ráðherra er á hröðum flótta í þessu máli og forðast efnislega umræðu. Þetta mál snýst um tvennt:

Í fyrsta lagi einkennilega framkvæmd við rannsókn fíkniefnamála og dularfull atvik við reynslulausn dæmds glæpamanns.

Í öðru lagi snýst málið um yfirlýsingar hæstv. ráðherra á Alþingi. Hann er tvísaga vegna þess að hann og ráðuneyti hans komu að reynslulausninni þótt hann hafi áður sagt að slík framkvæmd væri lögleysa.

Hæstv. ráðherra er í vondum málum. Steiner-málið er eitt, ÞÞÞ-málið er annað og mál Haraldar Johannessens er hið þriðja. Í öllum þessum málum er ráðherra sakaður um misferli í embættisfærslum. Það er athyglisvert, herra forseti, að Davíð Oddsson forsrh. sér ekki ástæðu til að koma dómsmrh. til aðstoðar eða lýsa yfir trausti á störf Þorsteins Pálssonar. Það, herra forseti, segir margt um stöðu hæstv. ráðherra.

Niðurstaða þessarar umræðu er að hæstv. dómsmrh. hefur litlu eða engu svarað, öðru en dylgjum um aðra þingmenn. Þetta mál verður áfram til umræðu á Alþingi, hjá fjölmiðlum og meðal almennings. Þessu máli er ekki lokið.