Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:17:26 (3954)

1998-02-17 18:17:26# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:17]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og oft vill verða í lok umræðu þar sem hæstv. dómsmrh. er þátttakandi að hann svarar ekki neinu. Ég sagði ljóst um hvað þessi umræða snerist. Hún snýst um einkennilega framkvæmd við rannsókn fíkniefnamála og dularfull atvik við reynslulausn dæmds glæpamanns. Um það hefur umræðan snúist. Í öðru lagi um yfirlýsingar hæstv. ráðherra á Alþingi. Hann vitnaði reyndar sjálfur þau í og rakti hér áðan. Ég tel að þar hafi hann orðið tvísaga.

Áherslumunur eða breytingar í málflutningi okkar jafnaðarmanna er ekki til staðar. Hins vegar er það lenska hjá hæstv. ráðherra þegar hann er kominn út í horn að svara út í hött. Hann sleppur býsna oft með það. Þetta er ekki í fyrsta skipti. Menn skulu taka eftir því þegar hann kemur upp í ræðustól á eftir að hann mun þá engu svara um það sem ég hef verið að fjalla um heldur veitast að mér eða öðrum þingmönnum jafnaðarmanna með sömu dylgjunum og hann hefur verið með í dag.