Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:23:29 (3960)

1998-02-17 18:23:29# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég bar tvær fyrirspurnir fram til hæstv. dómsmrh. í dag en hann hefur ekki svarað þeim.

Í fyrsta lagi: Telur hæstv. ráðherra ekki eðlilegt að birta þann hluta skýrslunnar sem snýr að reynslulausninni með sama hætti og hann beitti sér fyrir því að kaflinn sem snýr að skipulagi lögreglunnar yrði birtur opinberlega? Er þar einhver eðlismunur á?

Í annan stað spurði ég hæstv. dómsmrh. að því hvað hann ætti við þegar hann vitnaði í Jónatan Þórmundsson prófessor. Ráðherra hafði eftir honum að fullnustumatsnefnd hefði verið stillt upp við vegg með sama hætti og ráðherra. Stillt upp við vegg af hverjum? Við hverja á hæstv. ráðherra? Á hann við að það hafi legið fyrir ákvörðun frá fyrrv. ráðherra og þess vegna hafi honum og fullnustumatsnefnd verið stillt upp við vegg því að þegar hafi verið tekin ákvörðun í ráðuneytinu um þessa reynslulausn? Við hvað á hæstv. ráðherra? Ég spyr þessara tveggja spurninga. (Dómsmrh.: Hver var fyrri spurningin?) Hvort ráðherrann telji ekki eðlilegt að birta þann hluta skýrslunnar sem snýr að reynslulausninni.