Samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:28:20 (3963)

1998-02-17 18:28:20# 122. lþ. 69.92 fundur 235#B samskipti dómsmálaráðuneytisins og lögregluyfirvalda# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom skýrt fram í svari mínu að ég hef ekki leitað eftir því. Ég leitaði eftir því að tiltekinn kafli væri birtur þar sem saksóknari hafði sjálfur tekið fram í bréfi að það sem þar væri fjallað um félli ekki undir hans starfssvið. Og um önnur atriði tekur hann að sjálfsögðu sjálfur ákvörðun í samræmi við lög, hvort birta skuli eða ekki.

Ég ítreka jafnframt það sem áður hefur komið fram og prófessorinn í refsirétti hefur margsinnis staðfest, að ákvörðunin um reynslulausn byggðist á gildandi lögum. Hér hefur verið gerð nákvæm grein fyrir atburðarásinni í því efni. Málið var í upphafi borið undir þáv. dómsmrh., þeir lögreglumenn sem hlut áttu að máli héldu áfram að vinna á grundvelli hans vilyrða. Þeir fengu umtalsverðar upplýsingar. Þegar málið kom til minna kasta og mér hafði verið gerð grein fyrir því þá vísaði ég því til efnismeðferðar hjá fullnustumatsnefnd og Fangelsismálastofnun sem tóku fullnaðarákvörðun. Á þeim tíma tók ráðuneytið eða ráðherrann ekki efnislega afstöðu til málsins.

Allt hefur þetta legið skýrt fyrir og furðulegt að hv. þm. hafi ekki tekið eftir því í hinni löngu umræðu í dag.