Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 18:48:01 (3968)

1998-02-17 18:48:01# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég misskil alls ekki þetta lagafrv. Ég veit að frv. er lagt fram undir þeim þrýstingi að óbærilegt sé að þeir sjúklingar fái ekki sinn hlut greiddan, sem hafa leitað sér lækninga hjá læknum sem hafa ekki samninga. Ég veit alveg nákvæmlega um það, enda stendur það nákvæmlega skráð hér.

Ég er bara að halda því fram að með því að stíga þetta skref, með fullri virðingu og fullum skilningi á þörfum sjúklinganna, þá sé ráðuneytið að missa tökin vegna þess að menn geta leikið þennan leik áfram. Þeir geta byrjað á því hvenær sem er að segja bara upp, byrja síðan að vinna, segja öllum: Ja, þið fáið borgað þegar við semjum næst. Það er enginn vandi fyrir bankastofnanir og hvern sem er að taka að sér að fjármagna þetta. Á nokkrum árum gætum við misst þetta úr höndunum. Það er þess vegna, herra forseti, sem ég efast um þessa málsmeðferð ríkisstjórnarinnar. Ég tel að hitt hefði verið réttara vegna þess að þá gætu sjúklingarnir fengið þetta endurgreitt. Ég hef ekkert á móti því. Það er nákvæmlega rétt hjá hæstv. ráðherra að mjög brýnt er að sjúklingarnir fái sínar greiðslur vegna þess að það er óbærilegt fyrir fátækt fólk að fá ekki greidda læknisaðstoð hjá hinu opinbera. Ég bara efast um þessa málsmeðferð.

Það kann að vera, herra forseti, að þá fyrst sigli flotinn í land, en stundum þurfa menn að takast á. Þessar deilur eru búnar að standa á annað ár. Það gengur ekki. Á annað ár hafa menn verið að reyna að ná samningum en það hefur bara ekkert gengið. Við getum ekki sætt okkur við það þó að slík lagasetning, eins og ég lagði til, stefni flotanum kannski í land. Þetta er neyðarráðstöfun vegna þess að þetta er búið að standa á annað ár. Ég minni á að menn voru reiðubúnir til þess, þar á meðal ég, að taka í taumana þó að verkfall hefði verið búið að standa í mjög stuttan tíma. En þessi vinnustöðvun eða uppsögn samninga, slík þrýstiaðgerð er búin að standa á annað ár þannig að ég tel mjög brýnt að grípa til ráðstafana.