Almannatryggingar

Þriðjudaginn 17. febrúar 1998, kl. 19:07:04 (3976)

1998-02-17 19:07:04# 122. lþ. 69.2 fundur 459. mál: #A almannatryggingar# (endurgreiðsla sérfræðikostnaðar) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 122. lþ.

[19:07]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna framlagningu þessa frv. þó það sé með ákveðnum göllum sem ekki var reiknað með miðað við þá umræðu sem fram hefur farið. Þá tilkynnti hæstv. ráðherra að lagt yrði fram mál sem heimilaði greiðslur til þeirra sjúklinga sem hefðu þurft að greiða fyrir læknisþjónustu þeirra sérfræðinga sem ekki væru á samningi við Tryggingastofnun. Fyrst og fremst er það þetta atriði, sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir kom inn á, að ekki verði um endurgreiðslur að ræða fyrr en samningarnir hafi verið gerðir og aðeins greitt vegna þjónustu þeirra sérfræðinga sem endurnýja samning sinn við Tryggingastofnun.

Ég dreg stórlega í efa að þetta samrýmist öðrum lögum um rétt allra til þjónustu heilbrigðiskerfisins. Eins finnst mér óeðlilegt að greiðsla skuli ekki hafin til þeirra sjúklinga sem þegar hafa notað þessa þjónustu. Samningarnir, lok samninga og hverjir endurnýja samning sinn við Tryggingastofnun skiptir ekki máli. Þá er ekki verið að að búa til tvöfalt kerfi vegna þess að við lok samninga liggur það fyrir hverjir endurnýja samning sinn við Tryggingastofnun og hverjir ekki. Greiðslum til þeirra sem ekki endurnýja yrði hætt þann dag sem það yrði ljóst. Mér finnst þetta vera stór galli á frv. sem hlýtur að verða tekinn sérstaklega fyrir í umfjöllun í heilbr.- og trn. Þá þyrfti jafnframt að leita eftir áliti sérfræðinga á því hvort þetta brjóti ekki í bága við önnur lög sem í gildi eru. Í raun og veru mundi það bitna á sjúklingi sérfræðingsins ef sá sami mundi ákveða að endurnýja ekki samning sinn við Tryggingastofnun. Þeir sjúklingar sem keypt hafa þjónustu viðkomandi sérfræðings eru þá þeir einu sem gjalda þessa. Á það er varla hægt að fallast.

Mér fannst koma fram mikill misskilningur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Þó að vissu leyti sé hægt að jafna saman því að læknar segi upp samningum sínum við Tryggingastofnun og því að fara í verkfall, þá er alls ekki um það að ræða að þeir sem fara í verkfallið, að mati þessa hv. þm., séu að fá eftirágreiðslu. Læknar hafa þegar fengið greiðslurnar. Það er sjúklingurinn sem geldur þessarar deilu. Það er sjúklingurinn sem borgar.

Mér hefur skilist á hæstv. forseta að rétt sé að við höfum þessa umræðu eins stutta og mögulegt er. Við höfum tækifæri til að taka hana upp í nefndinni og því ekki ástæða til að lengja umræðuna. Ég ætla þó að benda á að í frv. er kostnaðarumsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Í fjárlögum fyrir árið 1997 og 1998 hlýtur að hafa verið gert ráð fyrir þessum greiðslum til sérfræðinga miðað við gildandi fjárlög árið á undan. Í raun hlýtur að vera um það að ræða eins og fram kemur í þessari umsögn en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef miðað er við meðaltalskostnað Tryggingastofnunar á hverja komu til sérfræðilæknis og að 70--80 sérfræðilæknar af um 380 hafi þegar sagt sig af samningi má áætla að endurgreiddur kostnaður Tryggingastofnunar af störfum þeirra hefði numið á bilinu 50--60 millj. kr.``

Þannig virðist hafa verið gert ráð fyrir þessum kostnaði á fjárlögum 1997 og 1998. Menn gera a.m.k. ekki ráð fyrir öðru en að samningar náist og kostnaðurinn sé greiddur. Það er því ekki um nein viðbótarframlög til Tryggingastofnunar ríkisins að ræða. Þvert á móti er niðurstaða ráðuneytisins sú að þarna sparist frá áætluðum fjárlögum. Niðurstaða fjmrn. er sú að þessi greiðsla á hlut almannatrygginga í lækniskostnaði geti numið um 30--50 millj. kr. Það er töluvert minni upphæð en gert hefur verið ráð fyrir að öllu eðlilegu. Þannig má áætla að eitthvað sparist ef umsögn þeirra gengur eftir. Reikna má með því að tölurnar séu inni í fjárlögum þessa árs og síðasta þannig að eitthvað hefur sparast á síðasta ári og sú upphæð hlýtur þá að færast yfir á þetta ár.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta öllu lengra. Fyrst og fremst ber að athuga að skilyrði endurgreiðslunnar er að sjúklingur framvísi fullnægjandi reikningi og viðkomandi sérfræðingur hafi endurnýjað samning sinn við Tryggingastofnun ríkisins.

Miðað við það svar sem ég fékk frá hæstv. heilbr.- og trmrh. við fyrirspurn um afleiðingar samningsslita sérfræðinga við Tryggingastofnun ríkisins, reikna ég með að ekkert eftirlit hafi verið með útgefnum reikningum. Það sé hvorki eftirlit af hálfu Tryggingastofnunar né heilbrrn. með útgefnum reikningum þeirra sérfræðinga sem sagt hafa upp samningum enda liggi engar upplýsingar fyrir um fjölda þeirra sjúklinga sem hafa sótt þjónustu þessara sérfræðinga á þeim tíma sem þeir hafa verið án samninga. Erfitt er að átta sig á því hvort þeir reikningar sem hafa verið gefnir út eru fullnægjandi að mati Tryggingastofnunar ríkisins og hvernig með það verður farið ef sjúklingar framvísa ófullnægjandi reikningum. Það hefur ekki legið fyrir að ráðuneytið mundi nokkru sinni greiða þetta fyrr en nú á síðustu vikum. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra eða Tryggingastofnun ríkisins fara með þá reikninga sem eru ekki fullnægjandi að mati stofnunarinnar? Munu sjúklingar verða aðstoðaðir við að fá þá reikninga á þeim eyðublöðum sem Tryggingastofnun viðurkennir?