Flutningur húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:42:59 (3994)

1998-02-18 13:42:59# 122. lþ. 70.1 fundur 345. mál: #A flutningur húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ræða hæstv. félmrh. var fróðlegt yfirlit yfir allar þær nefndir sem hæstv. ráðherra er að kaffæra þetta mál í. Ég verð þó að segja það hæstv. ráðherra til hróss að ræða hans var skýr í lokin. Hann sagði afdráttarlaust að hann hefði ekki skipt um skoðun. Hann segir að forsenda þess að flytja þessa þjónustu yfir til banka og lánastofnana sé að þjónustan við þá sem eiga að njóta hennar batni.

Nú vill svo til, herra forseti, að ég hef hér í höndunum svar viðskrh. við fyrirspurn minni um þjónustugjöld fjármálastofnana. Þar kemur fram að almenna reglan er sú að lántökugjöld hjá bönkum og sparisjóðum eru 100% hærri en það lántökugjald sem Byggingarsjóður ríkisins tekur af fasteignaveðbréfum sem húsbréfadeild kaupir. Það er því ljóst að þjónustan yrði dýrari. Hið sama er ljóst samkvæmt ráðgjafarstofu sem hæstv. ríkisstjórn hefur notað og tekið mikið mark á, til að mynda varðandi sjúkrahúsakerfið. Hér á ég við ráðgjafarstofu VSÓ.

Það er alveg sama hvað hæstv. félmrh. segir í dag eða aðrir ágætir stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun. Samkvæmt mati hlutlausrar ráðgjafarstofu kemur það skýrt fram að líklegt er að kostnaður muni aukast við að flytja þjónustu deildarinnar yfir til bankanna. Þess vegna segi ég: Annaðhvort verður hæstv. ráðherra að koma hingað og segja að hann hafi skipt um skoðun eða segja það hreint út að hann, og þar með ríkisstjórnin, hafi enga trú á ráðgjafarstofu þeirri sem þeir hafa þó prísað og lofað í öðrum verkefnum.

Ræða ráðherrans verður að vera skýr og hann á að segja það hreint út hvort hann ætlar sér að fylgja því sem hann hefur sagt eða hvort ráðgjafarstofa VSÓ er bara punt.