Launamunur verkakvenna og verkakarla

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 13:46:22 (3996)

1998-02-18 13:46:22# 122. lþ. 70.2 fundur 469. mál: #A launamunur verkakvenna og verkakarla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[13:46]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fram hefur komið í fjölmiðlum að launamunur verkakvenna og verkakarla hafi aukist mikið allt frá árinu 1989. Árið 1980 voru dagvinnulaun verkakvenna 96% af launum verkakarla. Sá munur hélst óbreyttur til 1988 en 1989 jókst hann. Árið 1990 voru dagvinnulaun verkakvenna 93% af launum verkakarla og árið 1997 var hlutfallið komið niður í 87% af launum verkakarla. Hér er, herra forseti, á ferðinni mjög alvarleg þróun sem leita þarf skýringa á og leiðrétta. Í fyrsta lagi þarf að skoða hvort þessi launamunur sé innan sömu starfsgreina verkakarla og verkakvenna en þá verður að ætla að um sé að ræða brot á jafnréttislögum. Í annan stað þarf að skoða hvort um verulegan mun sé að ræða milli ólíkra starfsgreina verkafólks. Hvort tveggja er mjög alvarlegt sem kallar á að málið sé tekið föstum tökum.

Við erum að tala um þann hóp launafólks sem veikast stendur á vinnumarkaðnum og sem iðulega vinnur erfiðisvinnu fyrir laun sem eru smánarblettur á þjóðfélaginu og ekkert hægt að segja annað um en að séu undir fátæktarmörkum. Er það virkilega svo að þetta fólk hafi orðið eftir á vinnumarkaðnum og ekki notið góðs af góðærinu í þjóðfélaginu? Er það virkilega svo að þetta fólk hafi setið eftir á vinnumarkaðnum með þeim alvarlegu afleiðingum sem við sjáum birtast í launamun verkakvenna og verkakarla? Hér er m.a. um að ræða fólk í fiskvinnslu, við ræstingar, í verksmiðjum og við umönnunarstörf. Stöndum við frammi fyrir því að hagræðing í fiskvinnslunni hafi fyrst og fremst bitnað á konum og að niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu og breytt form í ræstingu hafi fyrst og fremst bitnað á kvennastörfum? Er það svo að í allri hagræðingunni hjá atvinnulífinu á undanförnum árum hafi þetta fólk fyrst og fremst lent undir niðurskurðarhnífnum? Er það svo að fyrirtækin hafi hagrætt eingöngu á kostnað fólksins á gólfinu en ekki í yfirbyggingunni?

Í blaðinu Vinnan, sem gefið er út af ASÍ, er ítarlega farið yfir þetta og bent á að á undanförnum árum hafi stór hópur verkakvenna sem stóð veikast fyrir á vinnumarkaðnum orðið sérstaklega hart fyrir barðinu á margvíslegri hagræðingu og niðurskurði. Einnig er bent á að vöxtur og þensla er nú í hefðbundnum karlastéttum en hinar hefðbundnu kvennastéttir nærast ekki á góðærinu.

Og síðan er bent á og sagt orðrétt: ,,Ef til vill stöndum við frammi fyrir sömu þróun og verkalýðshreyfingin í Evrópu. Þar er vaxandi fjöldi starfa hlutastörf, tímabundin störf, störf sem leigð eru atvinnurekendum og verktakavinna.``

Síðan er sagt að fórnarlömb þessarar þróunar séu fyrst og fremst konur.

Ég hef því borið fram fsp. til hæstv. félmrh. í tilefni af þessari alvarlegu þróun sem orðið hefur hjá konum því að þeirri þróun þarf að snúa við. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Telur ráðherra jafnréttismála ástæðu til að ætla að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin þegar upplýst er um verulegan mun á dagvinnulaunum verkakvenna og verkakarla?

Mun ráðherra með vísan til jafnréttislaga beita sér fyrir því að munur á dagvinnulaunum verkakvenna og verkakarla verði leiðréttur?

Með síðari spurningunni er ég að leita eftir hvort hæstv. ráðherra muni hafa frumkvæði að því að kalla til aðila vinnumarkaðarins til að leita skýringa á því hvað hér er á ferðinni og hvort þessir aðilar ásamt ríkisvaldinu þurfi ekki að grípa til sérstakra aðgerða til að leiðrétta þennan launamun og fara í markvissar aðgerðir eins og aukna starfsmenntun og starfsþjálfun fyrir þetta fólk til að styrkja stöðu þess á vinnumarkaðnum.