Nýjar starfsreglur viðskiptabankanna

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:04:38 (4003)

1998-02-18 14:04:38# 122. lþ. 70.3 fundur 350. mál: #A nýjar starfsreglur viðskiptabankanna# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:04]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 484 spyr hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um nýjar starfsreglur fyrir viðskiptabankana. Í fyrirspurn hv. þm. er spurt um hvaða reglur muni gilda um starfskjör stjórnenda hlutafélagabankanna þegar þeir hafa tekið til starfa, þar með taldar aukagreiðslur fyrir setu í stjórnum, nefndum og ráðum og fyrirtækjum tengdum bönkunum og risnu- og bifreiðahlunnindi.

Sú breyting sem gerð var á launafyrirkomulagi aðalbankastjóra og bankastjóra Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. þegar þeir tóku til starfa um síðustu áramót byggir á tillögum þeirrar nefndar sem stóð að undirbúningi að stofnun hlutafélaganna og þeim áherslum sem ég lagði fyrir stjórn hlutafélaganna á stofnfundi þeirra 10. september sl. Þar var lögð áhersla á að heildarlaun bankastjóra yrðu ákveðin í ráðningarsamningi. Þannig kæmu launatengdar greiðslur fram sem heildarlaun. Í heildarlaunum væri gert ráð fyrir störfum bankastjóranna sem tengdust setu þeirra í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum bankanna. Bankastjórar fengju þannig ekki sérstaklega greitt fyrir setu í stjórnum, nefndum og ráðum og gert var ráð fyrir að ef til slíkra greiðslna kæmi rynnu þær beint til bankanna.

Einnig var lögð áhersla á að risnugreiðslur yrðu ekki þáttur í launasamningum bankastjóranna eins og áður var en gert er ráð fyrir að bankastjórarnir geti haft afnot af bifreið í vinnu sinni.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hver verða heildarstarfskjör stjórnenda hlutafélagabankanna með nýjum starfsreglum? Með ráðningu bankastjóra hlutafélagabankanna var gengið út frá því að launatengdar greiðslur yrðu í formi fastra heildarlauna eins og áður sagði. Um önnur starfskjör vísa ég til þess sem fram kom í svari mínu. Ég lít svo á að með spurningu þessari sé ekki leitað eftir upplýsingum um upphæðir, enda hef ég þegar svarað fyrirspurn um það atriði og vísa þar til fyrirspurnar Ástu R. Jóhannesdóttur á þskj. 402 sem svarað var fyrr í vetur.

Í þriðja lagi er spurt hvort settar hafi verið almennar starfsreglur um risnu- og ferðakostnað fyrir bankana og þá hverjar þær reglur séu og hver muni leggja mat á nauðsyn utanlandsferða á vegum bankanna. Sérstakar reglur hafa verið settar um heimildir til að stofna til kostnaðar vegna risnu. Reglurnar byggja á því að risnukostnaður verði aðeins greiddur til að afla nýrra viðskiptasambanda, viðhalda þeim eða styrkja viðskiptatengsl. Risna verður aðeins greidd samkvæmt reikningi að uppfylltum skilyrðum um staðfest frumgögn, tilefni og fleira. Gert er ráð fyrir að bankaráðsformaður fylgist með umfangi risnukostnaðar.

Einnig hafa verið settar reglur um greiðslu kostnaðar vegna ferðalaga bankastjóra hvors hlutafélagabanka. Ferðakostnaður er greiddur af bönkunum, þ.e. fargjöld og gisting með morgunmat og að bankastjórar fá dagpeninga til að standa undir öðrum ferðakostnaði. Samkvæmt reglunum er lögð áhersla á aðhald og ber að áætla árlegan ferðakostnað og gera bankaráðsformanni grein fyrir ferðakostnaði og ferðatilefnum.

Þá er spurt sérstaklega hvort greiddur verði ferðakostnaður maka, þar með taldir dagpeningar. Heimilt er að greiða fargjöld og gistingu vegna maka ef tilefni ferðanna er þannig vaxið að talið er nauðsynlegt að maki viðkomandi bankastjóra fari með í ferðina. Óheimilt er hins vegar að greiða mökum dagpeninga.

Að síðustu er spurt hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að nýjar starfsreglur um risnu- og ferðakostnað og starfskjör stjórnenda bankanna verði einnig teknar upp í Seðlabankanum. Bankaráð Seðlabankans ákveður laun og ráðningarkjör bankastjóra. Það er því á ábyrgð hins þingkjörna bankaráðs hvernig reglum um ferðakostnað, risnukostnað og starfskjör bankastjóranna er háttað.