Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:23:27 (4009)

1998-02-18 14:23:27# 122. lþ. 70.4 fundur 424. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að verðlagning Landsvirkjunar til almenningsveitnanna sé veigamikið atriði í þessu sambandi. Ég er með tölur um það að Rarik skili Landsvirkjun árlega um 700 millj. kr. umfram langtímajaðarkostnað. Það segir sig sjálft að auðvitað kemur það fram í orkuverði Rariks þegar orkuöflunin er svo dýr. Á þjónustusvæði Rariks eru um 24% landsmanna en þeir skapa 42% af tekjum Landsvirkjunar til almenningsveitna. Þessar tölur segja einnig að íbúar á þjónustusvæði Rariks standa undir afborgunum, vöxtum og ekki síst arðgreiðslum til Reykvíkinga og Akureyringa, í meira mæli en aðrir landsmenn. Við gætum svo sem spurt okkur um réttlæti þess.