Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:32:34 (4014)

1998-02-18 14:32:34# 122. lþ. 70.4 fundur 424. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:32]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli Einarsson kom inn á að mikilvægast væri að lækka og jafna orkukostnaðinn, ég tek alveg undir það. Hins vegar kom mér á óvart og ég hafði ekki veitt því næga athygli áður að við greiðum niður stórkostlegan hluta af þessum kostnaði. Niðurgreiðslurnar, afsláttur orkufyrirtækjanna og endurgreiðsla á virðisaukaskatti nema samtals, eins og ég sagði áðan, 73 þús. kr. á ári fyrir notendur með 30.000 kílóvatta notkun á ári. Með öðrum orðum erum við í dag að greiða kostnaðinn niður um 48%, hvorki meira né minna.

Hitt stendur svo eftir að þrátt fyrir þetta munar miklu á þessum kostnaði eftir einstökum landsvæðum. Ég held að þessi kostnaður verði aldrei jafnaður með áframhaldandi niðurgreiðslum. Leita þarf nýrra leiða og ég benti á það að nú væru tækifæri til þess af hálfu Orkusjóðs og Orkustofnunar að leita að nýjum orkugjöfum á köldu svæðunum, m.a. með jarðhitaleitinni. Það sannar sig að orkukostnaðurinn er lægstur þar sem ódýru hitaveiturnar eru og nægur jarðhiti er til staðar.

Menn horfa sem betur fer fram á breytta tíma í þessum efnum. Eigendur Landsvirkjunar hafa komist að samkomulagi, sem var mikið til umfjöllunar hér fyrir réttu ári síðan, um að marka fyrirtækinu ákveðna gjaldskrárstefnu sem byggist á því að viðhalda gjaldskránni að raunvirði fram til ársins 2000 en að lækka gjaldskrána um 2--3% á ári frá árinu 2000 til ársins 2010. Það er um 20--30% lækkun að raunvirði. Þá held ég að menn fari fyrst að sjá árangurinn af raunverulegri lækkun. (Forseti hringir.) Ég tek jafnframt undir það með hv. fyrirspyrjanda að breytt skipulag orkumála sem ríkisstjórnin hefur boðað, mun geta valdið breytingum í þessum efnum.