Öldrunardeildin Ljósheimar á Selfossi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:43:46 (4018)

1998-02-18 14:43:46# 122. lþ. 70.5 fundur 398. mál: #A öldrunardeildin Ljósheimar á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég efa ekki að á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum hafi verið góður starfsandi og gott starfsfólk. En mér blöskruðu upplýsingarnar í úttekt þeirri er gerð var á aðstæðum sjúkraheimilisins og lesin var upp í fjárlagaumræðunni fyrir jólin. Þetta húsnæði er á mesta jarðskjálftasvæði landsins. Það eru innan við 100 ár síðan þarna urðu mannskæðir jarðskjálftar. Þvílíkar lýsingar á húsnæði þar sem sjúklingar eru rúmliggjandi, ófærir um að bjarga sér sjálfir. Þetta vakti með mér óhug og úr þessu verður að bæta. Þó að hægt verði að gera við húsið, þó það verði gert nokkurn veginn vatnshelt með umtalsverðum viðgerðum, þá verður auðvitað að gera ráð fyrir annars konar úrræðum fyrir rúmliggjandi sjúklinga. Það segir sig sjálft.