Öldrunardeildin Ljósheimar á Selfossi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:46:42 (4021)

1998-02-18 14:46:42# 122. lþ. 70.5 fundur 398. mál: #A öldrunardeildin Ljósheimar á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá ræðu sem hún flutti þó kannski væri í sjálfu sér óþarfi að fara yfir lýsingu á húsnæðinu, sögu byggingarinnar og endurbætur þessa húss. Við þekkjum það. Við vitum líka að stór hópur starfsfólks Ljósheima og Sjúkrahúss Suðurlands mótmælti því á sínum tíma þegar ákveðið var að hafa öldrunardeildina í þessu húsnæði.

Það er rétt að þarna höfum við haft mjög gott starfsfólk. En starfsfólkið hefur ítrekað kvartað undan vinnuaðstæðum og ekki síður kvartað undan þeim aðstæðum sem sjúklingunum er boðið upp á og aðstandendum þeirra sem vilja gjarnan dvelja með sínum þegar mikil veikindi steðja að, þá er það útilokað.

En það sem er auðvitað alvarlegast í þessu máli eru öryggisaðstæðurnar, hvað öryggi er lítið á staðnum. Það kemur beinlínis fram í skýrslum og í samtölum við starfsfólk þessa sjúkrahúss, að mjög erfitt geti verið að bjarga einstaklingum þarna út ef einhverjir alvarlegir atburðir eiga sér stað, t.d. eldsvoði eða jarðskjálfti, vegna þess að öryggisaðstæður eru ekki í lagi.

En ég fagna sérstaklega þeirri yfirlýsingu ráðherra að strax á þessu ári verði farið í hönnun eða tekin ákvörðun um að leysa þessi húsnæðismál. Hins vegar vek ég athygli á því að í skýrslu sem Heilbrigðiseftirlitið og byggingarfulltrúinn skilaði frá sér er fresturinn gefinn til 1. júní. Eftir 1. júní má leggja á dagsektir og hver á að borga þær? Það er mjög erfitt fyrir okkur eftir að hafa séð þessar skýrslur og þær niðurstöður liggja fyrir að una því að þarna verði sjúklingar áfram á þessu ári nema gripið verði til verulegra úrbóta á húsnæðinu meðan beðið er eftir öðru. Fresturinn er til 1. júní.