Skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:50:51 (4023)

1998-02-18 14:50:51# 122. lþ. 70.6 fundur 450. mál: #A skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:50]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því opinberlega yfir að unnið sé að gerð þjónustusamninga innan heilbrigðisþjónustunnar og jafnframt að stefnumótun um framtíð hennar. Nú segir það sig sjálft að mjög mikilvægt er að vel sé að þessu staðið og um niðurstöðurnar ríki sem víðtækust sátt. Innan heilbrigðisþjónustunnar er verkaskipting þannig að tvær heilbrigðisstéttir, læknar og hjúkrunarfræðingar, sinna mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni jafnframt faglegum skyldum sínum, og hafa þannig mikil áhrif á gang mála umfram aðrar starfsstéttir innan þessa geira.

Þegar hugað er að stefnumótun er fólk úr stjórnsýslunni yfirleitt kallað að borði öðrum fremur en fyrir bragðið er sú hætta fyrir hendi í umræðu af þessu tagi og þá væntanlega einnig í stefnumótun að slagsíða skapist.

Stefnumótun innan heilbrigðisþjónustunnar hér á landi mun hugsanlega kalla á endurmat á verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar og þar af leiðandi starfssviði heilbrigðisstétta. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til sjónarmiða einstakra starfsstétta og hópa en lokaniðurstöður þurfa að vera samfélaginu öllu, þeim sem þjónustunnar njóta og skattborgurunum til hagsbóta. Til þess að tryggja slíkar niðurstöður þarf þessi vinna að hvíla á breiðum grunni og allar starfsstéttir að koma að máli, sjúkraliðar og Sóknarfólk, ekki síður en læknar og hjúkrunarfræðingar. Mikilvægt er að vita hvaða starfsnefndir eru að hefja vinnu á vegum hæstv. heilbrrh. um stefnumótun og hvert sé verksvið þeirra og hvernig þær verði skipaðar en skriflega fyrirspurn mínar til ráðherra orðaði ég á þessa leið, með leyfi forseta:

Á hvern hátt hyggst ráðherra tryggja aðgang starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar að umræðum og ákvörðunum um svokallaða þjónustusamninga og framtíðarskipan heilbrigðiskerfisins?