Skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:53:29 (4024)

1998-02-18 14:53:29# 122. lþ. 70.6 fundur 450. mál: #A skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:53]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr: Á hvern hátt hyggst ráðherra tryggja starfsstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar að umræðum og ákvörðunum um svokallaða þjónustusamninga og framtíðarskipan heilbrigðiskerfisins?

Þegar ákvarðanir eru teknar varðandi framtíðarskipan heilbrigðiskerfisins er unnið að stefnumótandi lagafrumvörpum eða endurskoðun á heilbrigðislögum. Eru þá venjulega skipaðar sérstakar nefndir eða vinnuhópar til að vinna að tillögum í viðkomandi máli.

Í umræddum nefndum eða vinnuhópum eiga venjulega sæti embættismenn, sérfræðingar, fulltrúar fag- og hagsmunafélaga og síðar meir fulltrúar neytenda. Erfitt er hins vegar að koma því svo við að allar heilbrigðisstéttir eigi fulltrúa í öllum þeim nefndum sem skipaðar eru þar sem þær eru alls 26 talsins. Flestar hinna þýðingarmeiri tillögur eru hins vegar sendar fagfélögum heilbrigðisstétta til umsagna áður en mál eru lögð fyrir þingið eða stefnumótandi ákvarðanir eru teknar. Þannig gefst starfsstéttum innan heilbrigðisþjónustunnar iðulega tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þeim málum er þær varða með einum eða öðrum hætti.

Á vegum heilbr.- og trmrn. fer fram margþætt starf er lýtur að framtíðarskipan heilbrigðisþjónustunnar. Má þar nefna forgangsröðunarnefnd, nefnd um endurskoðun heilbrigðisáætlunar og framtíðarsýn heilbrigðisþjónustunnar og nefnd um stefnumótun í málefnum geðsjúkra. Í þessum nefndum eiga sæti fulltrúar heilbrigðisstétta, neytenda, frjálsra félagasamtaka og fleiri aðila eftir því sem við á í hverju tilviki. Ráðuneytið leggur sig líka ætíð eftir því að eiga sem víðtækast samstarf við fag- og hagsmunaaðila um málefni sem snerta hagsmuni þeirra og framtíðarskipan heilbrigðisþjónustunnar.

Þjónustusamningar snúast einkum um kaup hins opinbera á þjónustu viðkomandi heilbrigðisstofnunar, á hvaða verði hún er keypt og ýmis skilyrði um magn og gæði þjónustunnar. Þessir samningar eru gerðir á milli ráðuneytisins og yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Starfsmenn stofnunarinnar eiga samkvæmt lögum aðild að stjórnum heilbrigðisstofnana og fá þar væntanlega tækifæri til að fylgjast með undirbúningi samninga, taka þátt í umræðum um þá og svo endanlega að taka afstöðu til þeirra. Jafnframt verður að gera ráð fyrir að stjórnendur heilbrigðisstofnana leiti álits heilbrigðisstétta á faglegum hliðum slíkra samninga.

Ég vona að þetta svari þeirri fyrirspurn sem hv. þm. lagði fyrir.