Skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 14:58:41 (4026)

1998-02-18 14:58:41# 122. lþ. 70.6 fundur 450. mál: #A skipulagsbreytingar í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Spurningin var mjög almenns eðlis og svarið er almennt eftir því. Við því er ekkert að gera, ekki var við öðru að búast. Þar kom fram að leitað yrði álits faghópa og er það hið besta mál að leitað sé sem víðast fanga í upplýsingaöflun og um alla ráðgjöf. En það sem ég er kannski fyrst og fremst að vekja athygli á er að þegar nefndir eru skipaðar, þá er leitað fyrst og fremst inn í stjórnsýsluna sjálfa og þar eru tveir hópar, tvær stéttir, sem gegna stærra hlutverki en aðrar. Það eru læknar og hjúkrunarfræðingar.

Alþingismenn fengu nýlega í hendur gögn um úttekt sem gerð var á heilbrigðisþjónustunni í Noregi. Þar kemur fram að nýta megi mannafla á mun markvissari hátt en gert hefur verið til þessa. Ráða má af þessari skýrslu að stjórnsýslustéttirnar hafi ráðið miklu um alla stefnumótun sem síðan hafi leitt út á hálan ís. Ég vara við þessu og kalla eftir sem breiðastri samvinnu þegar kemur að því að endurmeta ýmsa þætti í stjórnsýslu heilbrigðiskerfisins, þ.e. að leitað verði sem víðast fanga hjá sem flestum starfshópum og sem flestum sjónarmiðum hleypt að þeirri vinnu.