Greiðslur í fæðingarorlofi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:05:39 (4029)

1998-02-18 15:05:39# 122. lþ. 70.7 fundur 457. mál: #A greiðslur í fæðingarorlofi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:05]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvar sé að finna stoð í lögum eða reglugerð fyrir þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að greiða foreldrum langveikra og fatlaðra barna ekki umönnunarbætur á meðan móðir er í fæðingarorlofi og fær greiddan fæðingarstyrk og dagpeninga.

Umönnunargreiðslur byggjast á 4. gr. laga um félagslega aðstoð, en samkvæmt henni er Tryggingastofnun heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, og á reglugerð 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Greiðslur í fæðingarorlofi byggjast hins vegar á 15. og 16. gr. almannatryggingalaga frá 1993.

Hvað varðar fyrri hluta fyrirspurnar hv. þm., þ.e. hvernig heilbr.- og trmrn. skilgreini greiðslur fæðingarstyrks og dagpeninga til mæðra í fæðingarorlofi bendi ég á að það sem skiptir máli í þessu sambandi er hvort fæðingarstyrkur, fæðingardagpeningar og umönnunargreiðslur falli undir hugtakið ,,bætur`` í skilningi 43. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt 43. gr. laga um almannatryggingar frá 1993 getur enginn samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt lögum. Bætur eru í 1. mgr. 43. gr. skilgreindar sem bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðara sem veitt er á annan hátt. Allar greiðslur samkvæmt lögum eru því bætur í skilningi 43. gr., þar með talið fæðingarstyrkur og fæðingardagpeningar.

Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði almannatryggingalaganna um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 1. gr. laganna eru taldar upp bætur félagslegrar aðstoðar og eru umönnunargreiðslur m.a. taldar þar. Hugtakið bætur er því notað í mjög víðtækri merkingu í almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð og tekur það m.a. til fæðingarstyrks, fæðingardagpeninga og umönnunargreiðslna. Samkvæmt 3. og 4. gr. reglugerðar um umönnunargreiðslur er tímabil umönnunargreiðslna frá lokum greiðslna í fæðingarorlofi til 16 ára aldurs. Þegar réttur skapast til framlengingar á greiðslum í fæðingarorlofi er foreldri hins vegar heimilt að velja þær greiðslur sem hærri eru. Hér er í raun aðeins verið að árétta það sem felst í lögunum að fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarorlofsgreiðslur skuli ekki greiddar á sama tíma. Hins vegar getur foreldri valið þær greiðslur sem hærri eru. Móðir sem á t.d. aðeins rétt á fæðingarstyrk getur því valið umönnunargreiðslur í staðinn og þess eru nokkur dæmi.

Loks bendi ég á að bætur félagslegrar aðstoðar, þar með taldar umönnunargreiðslur, eru heimildargreiðslur sbr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð en þar segir:

,,Tryggingastofnun er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna.``

Þetta kemur einnig fram í 1. gr. reglugerður um umönnunargreiðslur en þar segir:

,,Heimilt er að veita framfærendum fatlaðra og langveikra barna aðstoð frá Tryggingastofnun ríkisins.`

Ég tel því að framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins, að greiða foreldrum fatlaðra og langveikra barna ekki umönnunarbætur á meðan móðir er í fæðingarorlofi og fær greiddan fæðingarstyrk og dagpeninga, eigi stoð í lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerð um umönnunargreiðslur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda á að tilgangur fæðingarorlofsgreiðslna er að gera foreldri fært að vera heima og annast barn sitt. Tilgangur umönnunargreiðslna er sá sami og því þykir ekki eðlilegt að greiða tvöfalt. Mér er þó ljóst að nauðsynlegt er að koma betur til móts við foreldra í sérstökum tilvikum, t.d. vegna barna utan af landi sem þurfa að dveljast langdvölum í Reykjavík vegna læknismeðferðar. Flóknar aðgerðir, sem áður voru gerðar erlendis, eru að flytjast meira og meira inn í landið, of það er að sjálfsögðu jákvætt fyrir alla aðila. Þegar aðgerðir eru gerðar erlendis er hins vegar greiddur dvalarkostnaður en það sama á ekki við þegar foreldrar utan af landi þurfa að dveljast í Reykjavík. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu.

Nefnd á vegum Tryggingastofnunar er að vinna að tillögum til úrbóta, m.a. varðandi dvalar- og ferðakostnað og er von á áfangaskýrslu nefndarinnar innan skamms.