Greiðslur í fæðingarorlofi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:11:11 (4030)

1998-02-18 15:11:11# 122. lþ. 70.7 fundur 457. mál: #A greiðslur í fæðingarorlofi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur verið vakið máls á atriði sem var til umræðu á tryggingaráðsfundi nýlega og ber að þakka hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur fyrir að víkja að þessu. Ég held að hér sé um reginmisskilning að ræða af hálfu ráðuneytisins. Fæðingarstyrkur og fæðingardagpeningar eru auðvitað ígildi launa vegna þess að í flestum tilfellum missir konan vinnu við barneignina og auk þess er þetta hjálp við að fæða nýjan einstakling. Í upphafi 43. gr. almannatryggingalaga segir, með leyfi forseta:

,,Bætur samkvæmt lögum þessum teljast bætur greiddar í peningum og hjálp til sjúkra og slasaðra sem veitt er á annan hátt.``

Ég held að fæðingarorlof og fæðingardagpeningar og fæðingarstyrkur geti ekki talist bætur vegna sjúkdóma né slysa, þó það sé það nú stundum, að þá held ég að það eigi ekki við hér. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af því ég hef því miður engan tíma:

Hvernig fer með konu sem er á atvinnuleysisbótum? Ef hún skyldi eignast barna sem þarfnast sérstakrar umönnunar verður hún að velja á milli atvinnuleysisbóta og umönnunar barnsins síns?