Greiðslur í fæðingarorlofi

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:12:46 (4031)

1998-02-18 15:12:46# 122. lþ. 70.7 fundur 457. mál: #A greiðslur í fæðingarorlofi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur rakið lagatexta og túlkun ráðuneytisins á lagatexta. Ástæðan fyrir fyrirspurn minni er auðvitað sú að ég tel að skoða þurfi túlkun heilbrrn. og Tryggingastofnunar á þessu máli og skoða það á nýjan leik í ljósi ákvarðana sem tryggingaráð hefur tekið. Ég tel að þarna sé verið að blanda saman tveimur ólíkum þáttum. Greiðslur í fæðingarorlofi hafa hingað til haft þá túlkun að þetta séu laun, þetta séu greiðslur vegna þess að foreldri gefur upp atvinnuþátttöku meðan á barnsburðarleyfi stendur. Það er ósköp skýrt, held ég, og ef ég má vitna aftur í svar hæstv. fjmrh. við fyrirspurninni fyrr í vetur kemur þar mjög glögglega í ljós að alltaf er verið að tala um laun og launaígildi enda fá konur sem taka barnsburðarleyfi allar uppbætur á laun sem þær hafa náð í gegnum samninga sína.

Umönnunarbætur til foreldra fatlaðra og langveikra barna eru allt annars eðlis. Það er verið að mæta tilfinnanlegum kostnaði sem hlýst af veikindum eða fötlun barnsins og mun meiri umönnun en er almennt lagt á foreldra ófatlaðra barna. Þarna er ekki sambærilegur hlutur á ferðinni og ég skora á hæstv. heilbrrh. að láta fara fram endurskoðun á túlkun ráðuneytisins á greiðslum umönnunarbóta og samspili þess við fæðingarorlof. Ég tel brýnt að þarna verði skorið úr og ekki verði áfram mismunun í gangi eins og mér virðist vera reyndin í dag, þ.e. að foreldrum fatlaðra og langveikra barna er gert ófært að afla sér tekna á sama grundvelli og aðrar fjölskyldur hafa.