Bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:16:59 (4033)

1998-02-18 15:16:59# 122. lþ. 70.8 fundur 461. mál: #A bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um bifreiðakaupastyrki frá Tryggingastofnun ríkisins sem greiddir eru mikið hreyfihömluðu fólki. Styrkirnir eru greiddir samkvæmt reglugerð frá 1987 en tvær breytingar hafa verið gerðar á reglugerðinni síðan. Minnisstæð er breytingin frá því fyrir þremur árum þegar með bandormi við fjárlagagerðina var tekin sú ákvörðun að fækka styrkjum. Styrkir þessir eru tvenns konar, hærri styrkir, 50 styrkir sem eru 700 þús. kr. og lægri styrkir 235 þús. kr. sem voru 600 styrkir en var fækkað niður í 335 styrki. Einnig voru reglurnar þrengdar þannig að lægri styrkirnir voru greiddir til fimm ára í staðinn fyrir fjögurra og einnig var aldurstakmark lækkað þannig að menn fengu ekki styrkinn ef þeir voru komnir yfir sjötugt.

Ég orðið vör við það og fengið margar athugasemdir frá mikið hreyfihömluðum einstaklingum, sem hafa sótt um þessa styrki, að þeim hefur verið synjað, annars vegar vegna þess að svo margir hafi sótt um styrkina og hins vegar vegna þess að þeir uppfylla ekki skilyrðin, m.a. aldurstakmörkin eða jafnvel að tekjutenging er borin fyrir um synjun.

Eftir að hafa skoðað þessi mál nokkuð tel ég að þær reglur sem gilda um bifreiðastyrkina séu ekki í takt við tímann. Það að synja hreyfihömluðum manni, fötluðum einstaklingi um styrk af því að hann er orðinn sjötugur og er fullfær um að komast leiðar sinnar en er algerlega háður því að hafa bíl, að synja honum um styrkinn er auðvitað ekki í takt við lög í landinu. Þar vil ég nefna stjórnsýslulögin, en ein af meginreglum þeirra er jafnræðisreglan, sem segir að allir skulu jafnir fyrir lögum og borgurunum skuli ekki mismunað við afgreiðslu frá stjórnvöldum. Sams konar mál skuli fá sömu afgreiðslu o.s.frv.

Ég tel að skoða þurfi þessar reglur verulega en vil gjarnan fá upplýsingar og spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Hversu mörgum hefur verið synjað um styrk til bifreiðakaupa frá því að styrkjunum var fækkað 1996? Og hversu margir hreyfihamlaðir sem bundnir eru við hjólastól --- en það er skilyrði fyrir að fá hærri styrkinn --- eða með gervilimi, sem hafa uppfyllt skilyrðin fyrir hærri styrknum, hafa fengið synjun eða jafnvel lægri styrkinn vegna þess hve fáir hærri styrkirnir eru? Ég vil gjarnan fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. ráðherra því að ég tel að endurskoða þurfi þessar reglur.