Bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:20:35 (4034)

1998-02-18 15:20:35# 122. lþ. 70.8 fundur 461. mál: #A bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir spyr hve mörgum umsækjendum um styrk til bifreiðakaupa hafi verið synjað um styrkinn á árunum 1996, 1997 og 1998. Að meðaltali hafa farið um 130 millj. kr. á þessu árabili til styrkja. Um 400 styrkir hafa verið veittir að meðaltali. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar var 659 einstaklingum synjað árið 1996, 294 einstaklingum synjað árið 1997 og 358 einstaklingum synjað árið 1998. Nokkrir af þeim sem var synjað var vegna þess að þeir voru að sækja um að kaupa bifreið innan þeirra fimm ára sem reglurnar segja til um að verði að líða milli þess að einstaklingar skipta um bíl. En varðandi hærri styrkina gildir þessi regla í þrjú ár eins og hv. þm. eflaust kannast við.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvort margir hreyfihamlaðir bundnir hjólastól eða með gervilimi, sem uppfylltu skilyrði fyrir hærri styrknum, hafi fengið synjun eða lægri styrkinn vegna þess hve fáir hærri styrkirnir eru. Ástæður synjunar fyrir styrkveitingum eru ekki sérgreindar hjá Tryggingastofnun en úthlutunarnefnd fer yfir allar umsóknir og þeir einstaklingar sem verst eru haldnir líkamlega og fjárhagslega ganga fyrir styrkveitingu. Þannig byggir nefndin á læknisfræðilegu mati við úrvinnslu umsókna. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar liggur fyrir að einhverjir einstaklingar sem læknisfræðilega geta uppfyllt skilyrði fyrir hærri styrknum hafi fengið úthlutað lægri styrknum þar sem fjöldi hærri styrkjanna er takmarkaður, eða um 50, og hefur fjöldi þeirra verið óbreyttur frá upphafi eða frá árinu 1987. Ekki liggur fyrir um hve marga einstaklinga er að ræða og slíkar upplýsingar yrðu handavinna úr umsóknum á læknisfræðilegum forsendum. Starfsmenn Tryggingastofnunar telja að ekki sé um nema mjög fáa einstaklinga að ræða en treysta sér ekki til að áætla fjöldann nákvæmlega án þess að fara yfir allar umsóknir.

Vert er að benda á til frekari skýringar að árlega hafa fjórir til sjö einstaklingar af þeim 50 sem fá úthlutað hærri styrkjum fengið styrk sem nemur 40% af kostnaði þar sem þeim sé óhjákvæmilega nauðsyn að hafa yfir sérútbúinni bifreið að ráða til að sækja vinnu. Er þar í öllum tilvikum um að ræða einstaklinga sem bundnir eru hjólastól, þurfa á sérútbúnaði að halda og eru í fastri vinnu.

Ég hef áður útskýrt í svari við fyrirspurn hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hvernig og hvenær upphæðir, réttindi og reglur um styrki til bifreiðakaupa hafa breyst á undanförnum fimm árum. Í því svari kemur fram að hærri styrkirnir eru óbreyttir, veittir til þriggja ára en lægri styrkirnir veittir til fimm ára. Þá kemur einnig fram að mun fleiri af styrkþegum hafa getað notfært sér styrkinn nú síðustu ár en áður var eða 94% nú í stað 78% áður.

Í lokin vil ég benda á, virðulegi forseti, að í síðasta mánuði gaf ég út reglugerð sem heimilar styrkþegum að kaupa notaða bifreið. Þannig var afnumið það skilyrði styrkveitingar að keypt sé ný bifreið. Þetta tel ég vera í fullu samræmi við lengri endingu bifreiða þar sem þær eru betri en áður og vegir hafa batnað mikið sem dregur úr sliti þeirra. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frekari breytingar á reglum sem varða bifreiðamál en ég mun í næstu viku fá í hendur álit sérstakrar nefndar sem fór yfir þessi mál og samtök hagsmunaaðila áttu sæti í. Ég mun fara yfir þær tillögur áður en ákvarðanir verða teknar um frekari breytingar á reglum þessum.