Bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:30:08 (4038)

1998-02-18 15:30:08# 122. lþ. 70.8 fundur 461. mál: #A bifreiðakaupastyrkir fyrir hreyfihamlaða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:30]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér var rætt um að fyllstu sanngirni yrði að gæta í þessum málum. Það er gert með læknisfræðilegu mati og fjárhagsleg geta einstaklingsins metin. Þannig ganga þeir fyrir sem mest þurfa á þessum styrkjum að halda, bæði læknisfræðilega og fjárhagslega.

Eflaust má metast um það hvort styrkirnir séu nógu margir en það ætla ég ekki að gera.

Varðandi það að hv. þm. spurði áðan hvort fólki væri ekki mismunað verulega með því að það fái ekki greidda styrki eftir sjötíu ára aldur, þá er það mikið umhugsunaratriði. Eins og einnig kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur áðan þá er þyrftu flestir á því að halda upp úr sjötugu, eftir 70--75 ára aldur. Þá er spurningin þessi: Eiga allir aldraðir sem eiga erfitt með hreyfingar að fá þessa styrki? Þetta er spurning sem við þurfum öll að spyrja okkur. (Gripið fram í: Hvað segja lögin um réttindi sjúklinga?) Ég held að þetta sé nákvæmlega það sem menn verða að spyrja sig um. Eigum við að ganga svo langt að allir aldraðir fái þennan styrk, hafi þeir læknisfræðilegt mat um að þeir þurfi á því að halda og takmarkað fjármagn til að eignast sína eigin bifreið?

Ég held að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hafi áðan verið að tala um að menn vilji ýta þessu öllu út úr Tryggingastofnun. Það er ekki rétt. Menn vilja ekki að styrkirnir fari út úr Tryggingastofnun. En það er rétt hjá hv. þm., varðandi lánin, að mikill áhugi hefur verið fyrir því að lánin fari út úr Tryggingastofnun. Ég er hins vegar á móti því og hef staðið gegn því hingað til.